Hoppa yfir valmynd
12. maí 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Mikill áhugi á menntaátaki stjórnvalda Nám er vinnandi vegur

Tæplega 5000 manns mættu í Laugardalshöll á námsmessuna Skólinn opnar dyr sem haldin var í dag. Þar kynntu háskólar og framhaldsskólar nám sitt fyrir ungu fólki og atvinnuleitendum.

Nám er vinnandi vegur 2011
Nám er vinnandi vegur 2011
  • 5000 manns í Laugardalshöll í dag.
  • Framlög til menntamála aukin næstu þrjú ár.
  • Nýir möguleikar fyrir atvinnuleitendur.

Tæplega 5000 manns mættu í Laugardalshöll á námsmessuna Skólinn opnar dyr sem haldin var í dag. Þar kynntu háskólar og framhaldsskólar nám sitt fyrir ungu fólki og atvinnuleitendum. Mikil ánægja var með ráðgjöf og sameiginlega kynningu þessara tveggja skólastiga.  Á staðnum voru ráðgjafar frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Vinnumálastofnun, símenntunarmiðstöðvum og Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Kynningin, sem var öllum opin, er hluti af átakinu Nám er vinnandi vegur og byggir á tillögum frá samráðshópi ráðuneyta menntamála og velferðar, allra þingflokka, aðila vinnumarkaðarins og hreyfinga námsmanna sem forsætisráðherra skipaði.  Samsvarandi kynningar eru á döfinni á Suðurnesjum og Akureyri.

Fjármögnun átaksins er tryggð í samráði ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins í tengslum við gerð kjarasamninga en í heild verða framlög til menntamála með átakinu aukin um sjö milljarða króna næstu þrjú ár. Framhaldsskólinn verður efldur, atvinnuleitendum verður gefið tækifæri til að mennta sig, sérstakur þróunarsjóður stofnaður til að efla starfstengt nám og samstarf skóla og fyrirtækja um starfstengt nám verður aukið. Lög um LÍN og framfærslukerfi námsmanna verða endurskoðuð, skil framhaldsskóla og fullorðinsfræðslu verða gerð sveigjanlegri, námsráðgjöf efld og vinnustaðanámssjóður styrktur.

Með átakinu verður mun auðveldara en áður að komast að í framhaldsskóla eftir námshlé. Haustið 2011 munu skólarnir taka inn alla umsækjendur undir 25 ára aldri sem uppfylla skilyrði, ásamt eldri umsækjendum sem hafa lokið raunfærnimati vorið 2011.

Einnig opnast nýir möguleikar fyrir atvinnuleitendur. Þeim sem uppfylla skilyrði gefst nú kostur á að stunda nám á haustönn án þess að greiða skólagjöld. Markmiðið er að veita 1000 umsækjendum aðgang að framhaldsskólum, frumgreinadeildum, háskólum og framhaldsfræðslu – með óskertum atvinnuleysisbótum í eina önn.

Sérstakur stýrihópur stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins stýrir átakinu og gefa formenn hans frekari upplýsingar, þau Runólfur Ágústsson (695-9999) og Berglind Rós Magnúsdóttir (846-7514).

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta