Nefnd um verðtryggingu skilar skýrslu til efnahags- og viðskiptaráðherra
Eygló Harðardóttir, formaður nefndar um verðtryggingu, afhenti í morgun Árna Páli Árnasyni, efnahags- og viðskiptaráðherra, skýrslu nefndar sem falið var að kanna forsendur verðtryggingar á Íslandi og meta kosti og galla þess að draga úr vægi verðtryggingar í íslensku fjármálakerfi, án þess að fjármálastöðugleika sé ógnað. Í nefndinni sátu fulltrúar allra þingflokka, efnahags- og viðskiptaráðuneytis og fjármálaráðuneytis, auk áheyrnarfulltrúa frá Seðlabanka Íslands.
Verðtryggingarnefnd leggur áherslu á að forsenda þess að ná tökum á verðbólgu sé ábyrg stjórnun efnahagsmála. Bæta þarf hagstjórn og auka virkni peningastefnunnar með upptöku þjóðhagsvarúðartækja. Nefndin telur að tryggja verði fjölbreyttara framboð á óverðtryggðum lánum og skuldabréfum. Hluti af því er útgáfa ríkissjóðs og Íbúðalánasjóðs á óverðtryggðum skuldabréfum og að Íbúðalánasjóður bjóði upp á óverðtryggð húsnæðislán. Hvatt verði til sparnaðar vegna kaupa á fasteign og búseturétti. Síðast en ekki síst er mikilvægt að efla fjármálalæsi almennings, upplýsingamiðlun við sparnað og lántöku og neytendavernd til að sporna gegn ofskuldsetningu og áhættu tengda ólíkum lánaformum.
Hlutverk verðtryggingarnefndarinnar var að leggja fram tillögur um að draga úr vægi verðtryggingar í íslensku samfélagi, en ekki leiðrétta höfuðstól verðtryggðra lána. Mögulegar leiðir endurspegla þetta hlutverk, en ekki afstöðu einstakra nefndarmanna. Afstaða einstakra nefndarmanna kemur fram í sérálitum þeirra.
Þrjú sérálit eru lögð fram í skýrslunni.
- Arinbjörn Sigurgeirsson, Eygló Harðardóttir, Hrólfur Ölvisson og Lilja Mósesdóttir standa að áliti þar sem lagt er til afnám verðtryggingar með nokkrum aðgerðum. Vegna núverandi lána verði sett þak á hækkun verðtryggingar á ársgrundvelli (hámark 4%) og unnið að lækkun raunvaxta. Jafnframt verði innleitt óverðtryggt húsnæðislánakerfi og fjölgað búsetuformum.
- Vilhjálmur Þorsteinsson telur að stefna eigi að upptöku evru eftir inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Til lengri tíma litið muni vextir og verðbólga færast nær því sem gerist á evrusvæðinu og verðtrygging hverfa úr sögunni. Upptaka evru leiðir ekki sjálfkrafa til afnáms verðtryggingar á skuldabréfum en efna mætti til skiptaútboða verðtryggðra skuldabréfa yfir í óverðtryggð.
- Pétur H. Blöndal leggur áherslu á að fráleitt sé að hafa tvær myntir í ekki stærra efnahagslífi, verðtryggða og óverðtryggða krónu. Óstöðugleiki og erfið hagstjórn, ótti sparifjáreigenda við verðbólguskot og lokaðir erlendir markaðir gera það að verkum að byggja verður upp peningalegar eignir með sparnaði til að tryggja innlent lánsfé. Því er ekki hægt að styðja afnám verðtryggingar á þessari stundu.
Nefndin stendur fyrir opnum fundi á næstunni þar sem skýrslan verður kynnt. Fundurinn verður auglýstur síðar.
Vefsíða nefndarinnar á heimasíðu efnahags- og viðskiptaráðuneytis