Hoppa yfir valmynd
12. maí 2011 Utanríkisráðuneytið

Nýtt samkomulag Norðurskautsráðsins mun efla björgunarstarf á norðurslóðum

OS-i-Nuuk-12-mai
OS-i-Nuuk-12-mai

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra skrifaði í dag undir samkomulag um samstarf um leit og björgun á norðurslóðum ásamt fulltrúum hinna sjö aðildarríkja Norðurskautsráðsins en ráðherrafundur þess fer nú fram í Nuuk á Grænlandi.

Utanríkisráðherra sagði á fundinum að samkomulagið um leit og björgun marki tímamót í starfi Norðurskautsráðsins. Það styrki samvinnu ríkjanna um viðbragð við óhöppum í framtíðinni og sé mikilvægt fyrir Ísland vegna aukinnar skipaumferðar á norðurslóðum á næstu árum og áratugum.

Samningurinn er fyrsta lagalega bindandi samkomulagið sem gert er á vegum Norðurskautsráðsins. Utanríkisráðherra sagði á fundinum að ekki væri síður sögulegur sá áfangi að sammæli væri um það meðal ráðherra ríkjanna átta að samningurinn verði fordæmi fyrir alþjóðlegt samkomulag heimskautaríkjanna um varnir gegn oliuslysum á norðurslóðum. Íslendingar hafa lengi talið æskilegt að slíkt samkomulag verði gert.

Ráðherra fagnaði því að Norðurskautsráðið hyggðist setja reglur um siglingar á norðurslóðum og að vinna væri hafin við gerð samnings um mengunarvarnir sem taka ætti á hættunni á olíuslysum sem hætta væri á þegar hingað til ósnertar gas- og olíuauðlindir á norðurslóðum yrðu nýttar. Allt væri þetta til marks um eflingu norðurskautsráðsins sem væri mjög í þágu Íslendinga sem hefðu lagt kapp á að ráðið yrði eflt.

Utanríkisráðherra tók undir með Kuupik Kleist formanni grænlensku landstjórnarinnar að frumbyggjar þyrftu að koma að öllum ákvörðunum sem vörðuðu framtíð norðurskautsins.

Norðurskautsráðið hefur nýlega birt umfangsmikla umhverfisrannsókn þar sem kemur fram að loftslagsbreytingar hafa umtalsvert meiri áhrif á umhverfi norðurslóða en áður var talið. Segja vísindamenn sem að rannsókninni stóðu nauðsynlegt að draga verulega úr losun koldíoxíðs og annarra gróðurhúsalofttegunda en það er lykilþáttur í alþjóðlegum aðgerðum til að sporna við loftslagsbreytingum. Önnur rannsókn á vegum Norðurskautsráðsins bendir til þess að sót, ósón og metan geti skýrt allt að 40% af mælanlegri hlýnun á norðurslóðum.

Kort sem sýnir leitar- og björgunarsvæði aðildarríkja Norðurskautsráðsins.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta