Ráðherra skorar á ísraelsk yfirvöld að leysa þegar í stað skattfé Palestínumanna
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra skorar á ísraelsk yfirvöld að leysa þegar í stað skattfé Palestínumanna til palestínskra stjórnvalda, svo þau geti veitt borgurum þjónustu og greitt opinberum starfsmönnum laun.
Í kjölfar samnings Hamas og Fatah-hreyfinganna um sameiginlega bráðabirgðastjórn stöðvuðu Ísraelsmenn í byrjun maí greiðslur á sköttum og tollum sem þeir safna fyrir hönd Palestínumanna. Um er að ræða frystingu á um 10 milljörðum íslenskra króna en skattféð er um 70% af tekjum palestínsku heimastjórnarinnar.
Utanríkisráðherra segir það með öllu ótækt að Ísraelar setjist með þessum hætti á fé sem með réttu tilheyri Palestínumönnum. Þeim beri að greiða það án tafar. Utanríkisráðherra hvetur Ísraela til að feta í fótspor Fatah og Hamas sem nú hafi grafið stríðsöxina og vinni að því að mynda sameiginlega stjórn. Ráðherra fagnar samkomulagi hreyfinganna og vonast til þess að það verði Palestínumönnum happadrjúgt. Einhliða og ólögleg viðbrögð ísraelskra stjórnvalda séu ekkert annað en tilraun til að grafa undan samkomulaginu og auka enn á þjáningar óbreytts palestínsks almennings, sem treysti á opinbera og erlenda aðstoð til að eiga fyrir nauðþurftum.