Hoppa yfir valmynd
14. maí 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra við opnun á Mývatnsstofu

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, opnaði nýja sýningu í Mývatnsstofu, upplýsinga- og fræðslustofu um verndarsvæði Mývatns og Laxár laugardaginn 14. maí 2011 og flutti eftirfarandi ávarp af því tilefni. 

Forstjóri Umhverfisstofnunar, starfsmenn, sveitarstjórnarmenn og aðrir góðir gestir,

Það er mér mikil ánægja að vera hér með ykkur í dag og opna glæsilega nýja sýningu í Mývatnsstofu, upplýsinga- og fræðslustofu um verndarsvæði Mývatns og Laxár.

Það er mikilvægt að hafa gestastofur á verndarsvæðum þar sem sett er fram skýr og góð fræðsla um sérstöðu verndarsvæðisins, lands og þjóðar. Gestastofur eru mikilvægar fyrir ferðaþjónustuna í landinu og það hefur sýnt sig hér í Mývatnssveit eins og fram kemur í skýrslum starfsmanna verndarsvæðisins. Árið 2009 komu í Mývatnsstofu alls 73.359 gestir á tímabilinu frá 1. maí til 30. september og mun það vera tæplega 25 % aukning frá árinu 2008. Nokkur fækkun var á gestum í Mývatnsstofu árið 2010, sem líklega endurspeglar fækkun á ferðum Íslendinga þar sem árleg aukning erlendra ferðamanna til Íslands hefur verið 5,3% að jafnaði á milli ára síðustu 10 ár.

Allt frá því að fyrsta gestastofan, Sigríðarstofa í friðlandinu við Gullfoss var opnuð þann 19. júní árið 1994, hefur gestastofum á náttúruverndarsvæðum fjölgað. Það er líka ánægjulegt að sjá hvernig sveitarfélög, fyrirtæki og félagasamtök og aðrir hafa nýtt sér hugmyndafræði um gestastofur til að kynna sig og verkefni sín. Dæmi um slíkt eru Selasetur Íslands á Hvammstanga, sérstök gestastofa við Þingeyrarkirkju í Austur-Húnavatnssýslu, gestastofa sútarans á Sauðárkróki, gestastofur Landsvirkjunar, t.d. hér í Kröflustöð og í apríl síðastliðnum var opnuð gestastofa á Þorvaldseyri þar sem m.a. er fræðsla um eldgosið í Eyjafjallajökli vorið 2010. Þá má ekki gleyma að nefna Fuglasafn Sigurgeirs hér í Neslöndum sem dæmi um merkilega og velheppnaða gestastofu.

Gestastofur eru fyrst og fremst hugsaðar sem þjónusta fyrir ferðamenn en þær þjóna heimamönnum ekki síður. Í þeim er safnað fróðleik og þekkingu sem er mikilvæg fyrir samfélagið og íbúunum þykir vænt um og eru stoltir af að kynna fyrir gestum. Ekki má vanmeta mikilvægi gestastofa fyrir skólafólk í landinu. Stofurnar eru kjörinn vettvangur til uppfræðslu skólabarna og mætti e.t.v. nýta þær og verndarsvæðin betur í tengslum við kennslu um náttúruvernd, náttúrufar og sögu.

Þessi nýja Mývatnsstofa sem nú verður formlega opnuð byggir á gömlum grunni, en landverðir Náttúruverndarráðs settu fyrst upp vísi að gestastofu í Mývatnssveit á Skútustöðum sumarið 1993. Þeir söfnuðu ýmsum munum úr umhverfinu og fólk kom og skoðaði, snerti og spjallaði. Sú stofa sýndi með ótvíræðum hætti fram á gildi þess að gestir og gangandi geti komið og fræðst um náttúruverndarsvæðið, leitað svara við spurningum sínum og fengið nýja innsýn. Í framhaldi af þessu framtaki landvarða fól Náttúruverndrráð Árna Einarssyni líffræðingi og forstöðumanni Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn að vinna fræðsluefni og tillögu að uppsetningu þess í fullbúinni sýningu, sem var einskonar “farand-gestastofu” þar sem ekkert fast húsnæði var fyrir sýninguna. Á tíma “farand-gestastofunnar” var það eitt af fyrstu verkefnum landvarða á sumrin að setja upp sýninguna og með síðustu verkefnum að taka hana niður og koma í geymslu yfir vetrarmánuðina. Þetta fyrirkomulag hélst til ársins 2001 en þá var sýningin sett í geymslu og var í dvala í nokkur ár. Eins og nærri má geta var það aldeilis óviðunandi ástand. Það var síðan 19. júní 2006 að sýningin fékk samastað að Hraunvegi 8, í Reykjahlíð og við það tækifæri voru gerðar á henni lítilsháttar breytingar.

Í dag sjáum við nýja glæsilega sýningu sem hönnuð er inn í rými hússins sem hýsir skrifstofu Umhverfisstofnunar ásamt skrifstofu Vatnajökulsþjóðgarðs hér í Mývatnssveit. Það er ánægjulegt að sjá að sérstaklega er gert ráð fyrir yngstu gestum svæðisins í sérstöku rými, enda afar mikilvægt að kynna mikilvægi náttúruverndar fyrir þeim sem erfa landið.

Í verndaráætlun fyrir Mývatns og Laxársvæðið sem staðfest verður hér í dag er meðal markmiða Umhverfisstofnunar að almenningur læri að meta, virða og skilja þær náttúru- og menningarminjar sem verið er að vernda, þar sem svæðið er ákaflega sérstakt og verndargildi þess mikið. Vegna sérstöðu svæðisins er Mývatnssveit einn af fjölsóttustu ferðamannastöðum landsins.

Opnun Mývatnsstofu er liður í aðgerðum Umhverfisstofnunarinnar til að auka fræðslu og auðvelda aðgengi almennings að upplýsingum um náttúrufar og menningu Mývatns og Laxár svæðisins í nútíð og þátíð. Um leið ætti skilningur fólks á mikilvægi góðrar umgengni að vakna því eins og landverðir benda oft á þá leiðir þekking til virðingar og virðing til verndunar.

Náttúrufar Mývatnssvæðisins, jarðmyndanir og lífríki er fjölskrúðugt þar sem jarðeldar og vatn hafa skapað umhverfi einstakra og fagurra hraunmyndana ásamt auðugu og fjölbreyttu lífríki. Vegna sérstöðu svæðisins á sviði líf- og jarðvísinda sækja þangað erlendir og innlendir vísindamenn til rannsókna og þekkingaröflunar. Í Mývatnssveit hefur um árabil verðið starfrækt Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn og Norræna eldfjallastöðin, nú Norræna eldfjallasetrið sem er hluti af Jarðvísindastofnun Háskólans og er með starfsstöð í Mývatnssveit. Þá má einnig nefna samstarf heimamanna og jarðvísindamanna í tengslum við Kröflueldana en þá var starfrækt í Mývatnssveit eldfjallavöktun sem í daglegu tali var nefnd “skjálftavaktin”. Þar fékkst ómetanleg þekking á eðli eldgosa á Íslandi enda urðu menn þarna vitni að því hvernig landrekskenningin sannaðist. Fá svæði í heiminum geta stært sig af sambærilegum hlutum.

Mývatnssvæðið hefur alþjóðlegt verndargildi en Mývatn og Laxá alls um 20.000 ha var fyrsta votlendissvæði landsins sem tilnefnt var Ramsarlistann, þ.e. samþykkt um votlendi með alþjóðlegt gildi, einkum fyrir fuglalíf.

Þessi gestastofa mun án efa verða mikilvægur hornsteinn í fræðslu og verndun þessa einstaka landsvæðis.

Ég óska Mývetningum, Umhverfisstofnun og öllum aðstandendum þessarar glæsilegu sýningar hjartanlega til hamingju og lýsti hér með sýninguna í Mývatnsstofu formlega opnaðan.

Takk fyrir

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta