Ný menntastefna - útgáfa aðalnámskrár
Mennta- og menningarmálaráðherra staðfesti í dag nýjar aðalnámskrár fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla.
- Markmiðið að undirbúa nemendur til að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í jafnréttis- og lýðræðissamfélagi
- Menntun til sjálfbærni er einn lykilþátta í nýjum námskrám.
- Aukin áhersla á gagnrýna hugsun og lýðræði í öllu skólastarfi.
- Sköpun gerð að grundvallaratriði í öllu námi
- Jafnréttismál og siðfræði eru hluti af samfélagsgreinum í grunnskóla
- Aukin móðurmálskennsla til samræmis við aðrar Norðurlandaþjóðir
Mennta- og menningarmálaráðherra staðfesti í dag nýjar aðalnámskrár fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla. Í þeim birtist ný menntastefna sem hefur það meginmarkmið að rækta með markvissum hætti þá þekkingu, leikni og viðhorf sem styrkir getu einstaklinga í framtíðinni til að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í jafnréttis- og lýðræðissamfélagi. Kjarni menntastefnunnar er settur saman úr sex grunnþáttum: læsi, sjálfbærni, lýðræði, jafnrétti, heilbrigði og velferð og sköpun.
Námskrárnar eru aðgengilegar á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins en fyrirhugað er að gefa þær út á prenti í haust. Námskrárnar taka gildi frá og með næsta skólaári og verða innleiddar á þremur árum.
Útgáfa nýrra aðalnámskrár fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla
Í framhaldi af setningu nýrra laga árið 2008 um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla hefur verið unnið að innleiðingu þeirrar menntastefnu sem þar er mörkuð. Undirstöðuatriði í þeirri vinnu er gerð aðalnámskrár fyrir skólastigin þrjú. Á Alþingi liggur frumvarp um grunnskóla en beðið er eftir afgreiðslu Alþingis á því svo hægt sé endanlega að ganga frá námskrá grunnskóla.
Aðalnámskrá er rammi um skólastarfið á þessum skólastigum og leiðsögn um tilgang þess og markmið. Hún birtir heildarsýn um menntun og útfærir nánar þá menntastefnu sem felst í lögunum. Aðalnámskrá er ætluð stjórnendum, skóla, kennurum og öðru starfsfólki í skólakerfinu. Einnig veitir hún nemendum, foreldrum þeirra, opinberum stofnunum, félagasamtökum, aðilum atvinnulífsins og almenningi upplýsingar um tilgang og starfsemi skóla.
Grunnþættirnir sex
Við mótun nýrra námskráa tók Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, ákvörðun um að hugað yrði sérstaklega að hlutverki skólakerfisins í þeirri uppbyggingu og endurmótun samfélagsins sem nú á sér stað. Lagði hún því sérstakar áherslur inn í vinnu við aðalnámskrár þar sem einstaklings- og samfélagsmiðuð gildi almennrar menntunar á skólastigunum þremur eru skilgreind sem grunnþættir menntunar.
Grunnþættirnir fléttast inn í aðalnámskrár á öllum skólastigum:
- Efnisval og inntak kennslu, leiks og náms skal mótast af grunnþáttunum.
- Starfshættir og aðferðir sem börn og ungmenni læra eru undir áhrifum hugmynda sem fram koma í umfjöllun um grunnþættina.
- Vinnubrögð kennara og annarra sem starfa í skólum eiga að mótast af grunnþáttunum þannig að stuðlað sé að sjálfstæði, frumkvæði og þróun í skólastarfi .
- Þegar skólastarf er metið þarf að skoða hvort og hvernig grunnþættirnir hafi sett mark sitt á kennslu, leik og nám og skólastarfið í heild.
Grunnþættirnir eru:
- Læsi: Meginmarkmið læsis er að nemendur séu virkir þátttakendur í að umskapa og umskrifa heiminn með því að skapa eigin merkingu og bregðast á persónulegan og skapandi hátt við því sem þeir lesa með hjálp þeirra miðla og tækni sem völ er á. Sem fyrr skiptir það miklu máli að börn nái tökum á tiltekinni lestrar- og ritunartækni en athyglin beinist nú jafnframt að allri þeirri tækni sem nemendur geta notað í samskiptum, námi og merkingarsköpun – í þágu sjálfra sín og samfélagsins.
- Sjálfbærni: Sjálfbærni snýst um að hugsa um samspil umhverfis, efnahags, samfélags og velferðar. Algengasti skilningur á hugtökunum sjálfbærni og sjálfbær þróun felur í sér að við skilum umhverfinu til afkomendanna í ekki lakara ástandi en við tókum við því og við leitumst við að mæta þörfum samtíðar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að mæta þörfum sínum. Efnahagskerfi samfélaga skipa stórt hlutverk þegar kemur að skynsamlegri nýtingu auðlinda og sanngjarnri skiptingu þeirra. Þannig er mikilvægt að efnahagsvöxtur byggi hvorki á, né leiði til, óhóflegs ágangs á náttúruna. Framleiðsla og neysla eru órjúfanlegir þættir samfélags og um leið efnahags hvers einstaklings. Skilningur á eigin vistspori, vistspori samfélaga og þjóða stuðlar að sjálfbærri þróun og hófsemi.
- Lýðræði: Í lýðræði taka einstaklingar afstöðu til siðferðilegra álitamála og virkan þátt í mótun samfélagsins. Í lýðræðisríki þurfa borgararnir að búa við mannréttindi og ráða öllum meiriháttar málum sínum sameiginlega. Forsenda lýðræðis er samábyrgð, meðvitund og virkni borgaranna sem gerir þá færa um að taka þátt í að móta samfélag sitt og hafa áhrif nær og fjær. Lýðræði er mikilvægt á vettvangi skólans. Í fyrsta lagi þurfa skólar að taka mið af því að barna og ungmenna bíður að taka þátt í lýðræðissamfélagi og því er mikilvægt að börn læri um þess háttar samfélög. Í öðru lagi þurfa skólar að taka mið af því í öllum starfsháttum að borin sé virðing fyrir manngildi hvers og eins. Gert er ráð fyrir því að börn og ungmenni læri til lýðræðis með því að læra um lýðræði í lýðræði.
- Jafnrétti: Jafnréttismenntun felur í sér gagnrýna skoðun á viðteknum hugmyndum í samfélaginu og stofnunum þess í því augnamiði að kenna börnum og ungmennum að greina þær aðstæður sem leiða til mismununar sumra og forréttinda annarra. Jafnrétti er regnhlífarhugtak sem nær til margra þátta. Hér á eftir er upptalning nokkurra þeirra í stafrófsröð: Aldur, búseta, fötlun, kyn, kynhneigð, litarháttur, lífsskoðanir, menning, stétt, trúarbrögð, tungumál, ætterni, þjóðerni. Á öllum skólastigum á að fara fram menntun til jafnréttis þar sem fjallað er um hvernig ofangreindir þættir geta skapað mismunun eða forréttindi í lífi fólks. Áherslu ber að leggja á að drengir og stúlkur eigi sem jafnasta og víðtækasta möguleika. Hvergi í skólastarfinu, í inntaki né starfsháttum, ættu að vera hindranir í vegi annars hvors kynsins.
- Heilbrigði og velferð: Heilbrigði byggir á andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan án tillits til félagslegrar stöðu. Það ræðst af flóknu samspili einstaklings, aðstæðna og umhverfis. Allt skólastarf þarf að efla heilbrigði og stuðla markvisst að velferð og vellíðan enda verja börn og ungmenni stórum hluta dagsins í skóla. Veita þarf fræðslu um hreyfingu, efla hreyfifærni og skapa öruggt umhverfi sem hvetur alla til hreyfingar. Taka þarf mið af þessu í íþróttakennslu og öllu öðru skólastarfi. Í skólaumhverfinu þarf á sama hátt að stuðla að heilsusamlegu fæðuvali með fræðslu og góðu framboði á fjölbreyttum mat. Helstu þættir heilbrigðis sem leggja þarf áherslu á eru jákvæð sjálfsmynd, hreyfing, næring, hvíld, andleg vellíðan, góð samskipti, öryggi, hreinlæti, kynheilbrigði og skilningur á eigin tilfinningum og annarra.
- Sköpun: Í sköpun felst að móta viðfangsefni og miðla þeim, búa til, gera eitthvað nýtt eða öðruvísi en viðkomandi kann eða hefur gert áður. Sköpun er að uppgötva, njóta, örva forvitni og áhuga, virkja ímyndunarafl og leika sér með möguleika. Sköpun brýtur hefðbundin mynstur, reglur og kerfi og veitir nýja sýn á fyrirbæri og viðteknar hugmyndir. Sköpun byggir á gagnrýnni hugsun og aðferðum sem opna sífellt nýja möguleika og því skiptir sköpunarferlið ekki síður máli en afrakstur verksins. Í sköpuninni felst einnig hagnýting hugmynda. Vinnubrögð í listsköpun og vísindum einkennast oft af sköpunargleði, frumkvæði og frumleika. Þannig vinnubrögð er æskilegt að sjá í öllu námi og skólastarfi.
Sameiginlegur hluti námskráa
Aldrei áður hefur fyrsti kafli í námskrá skólastiganna verið sameiginlegur en þar er fjallað um hlutverk námskrár, grunnþættina, fagmennsku kennara og mat á skólastarfi.
Aðalnámskrá leikskóla
Í námskránni er lögð áhersla á lýðræði og jafnrétti og litið svo á að börnin séu fullgildir þáttakendur í samfélagi leikskólans. Þau eiga að fá tækifæri til að koma að lýðræðislegum ákvörðunum sem varða leikskólastarfið sjálft. Leikskólinn er jafnframt mikilvægur vettvangur til að jafna uppeldisaðstæður barna. Lögð er áhersla á að kennarar og stjórnendur í leikskólum fái svigrúm til að þróa leikskólastarfið á faglegan og skapandi hátt. Námssvið leikskólans eru læsi og samskipti, heilbrigði og vellíðan, sjálfbærni og vísindi, sköpun og menning,
Aðalnámskrá grunnskóla
Grunnskólinn er eftir sem áður eina skylduskólastigið og er því eitt um að tryggja að allir geti fengið tækifæri til að búa sig undir þátttöku í virku lýðræði, þjálfað gagnrýna og skapandi hugsun og mætt ólíkum félagslegum og menningarlegum aðstæðum. Nýmæli í námskránni felast meðal annars í nýjum áhersluþáttum innan samfélagsgreina, þ.e. jafnréttismálum, trúarbragðafræði og siðfræði, kröfum um jafngildi bóknáms og list- og verkgreina. Grunnþátturinn læsi hefur bein áhrif á aukið hlutfall kennslustunda í íslensku og erlendum málum en við þær breytingar stendur Ísland loks jafnfætis Norðurlandaþjóðum varðandi námstíma í móðurmálskennslu.
Aðalnámskrá framhaldsskóla
Samkvæmt framhaldsskólalögum er fræðsluskylda til 18 ára. Það þýðir að allir 16-18 ára nemendur sem vilja sækja nám í framhaldsskóla eiga rétt á að komast inn í framhaldsskóla. Þessi breyting kallar á aukna fjölbreytni þannig að allir geti fundið sér nám við hæfi. Ekki er lengur gert ráð fyrir samræmdum námsbrautarlýsingum í námskrá heldur er þróun námsbrauta í höndum kennara og skólastjórnenda. Á stúdentsprófsbrautum er gert ráð fyrir ákveðnum kjarna í íslensku, stærðfræði og erlendum tungumálum og taka verður mið af áherslum sem birtast í grunnþáttum. Í heildina er þó mun meira svigrúm en áður til að útfæra námsbrautir.