Varmadælan lækkaði orkureikninginn til húshitunar hjá Trausta á Bjarnargili um 55%!
Fyrir sléttu ári fór Trausti Sveinsson bóndi á Bjarnargili í Fljótum á námskeiðið ORKUBÓNDINN sem haldið var á Sauðárkróki að undirlagi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Orkustofnunar. Á námskeiðinu var m.a. fjallað um varmadælur og hvernig þær geta lækkað orkukostnað vegna húshitunar Það skipti engum togum að mánuði síðar var Trausti búinn að fjárfesta í einni slíkri og koma í gagnið. Og árangurinn lætur ekki á sér standa ... orkureikningurinn til húshitunar á Bjarnargili hefur lækkað um meira en helming! Og nú eru tíu aðrir bændur að koma upp varmadælum á sínum búum.
Trausti Sveinsson segir að orkuverð á landsbyggðinni sé allt of hátt og eðlilega leiti menn allra leiða til að lækka útgjöldin. En Trausti lætur ekki sitja við orðin tóm heldur er hann forvígismaður að verkefninu „Sjálfbært samfélag í Fljótum“ sem hann segir sitt framlag til að koma Íslandi út úr kreppunni. „Það verða einfaldlega allir Íslendingar að leggja sitt af mörkum.“
Námskeiðið Orkubóndinn er hugsað fyrir áhugafólk um virkjun orku, einstaklinga, fyrirtæki, landeigendur, bændur og alla sem hafa áhuga á að beisla orkuna heima fyrir. Á námskeiðinu er fjallað á aðgengilegan hátt um leiðir til að virkja læki eða ár, jarðhita, vindorku, sólarorku eða jafnvel fjóshauginn.