Ráðherra ávarpar kollega sína í ESB
Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra flutti framsögu Íslands á samráðsvettvangi umsóknarríkja með efnahags- og fjármálaráðherrum ESB (ECOFIN) í Brussel í dag. Með honum í för var Már Guðmundsson seðlabankastjóri. Til umfjöllunar var staða efnahagsmála umsóknarríkja og gerði Árni Páll grein fyrir hagstjórnarmarkmiðum fyrir árin 2011 til 2013. Framundan væru lok efnhagsáætlunar AGS í ágúst og stöðugleika væri náð með frumjöfnuði og hagvexti. Helstu áskoranir væru hröðun skuldaúrvinnslu heimafyrir, afnám gjaldeyrishafta og opnun markaða út á við. Hrunið á Ìslandi hefði sýnt varnarleysi ríkja sem tækju fullan þátt á innri markaði Evrópu án þess að búa að sterkum gjaldmiðli og aga og aðhaldi sameiginlegra stofnana ESB. Aðild Íslands að ESB myndi skapa nauðsynlegan ramma til að Ísland gæti keppt af krafti á innri markaðnum til frambúðar.