Hoppa yfir valmynd
17. maí 2011 Matvælaráðuneytið

Ráðherra ræddi íslensku leiðina á fundi CEPS í Brussel

Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra flutti ræðu um íslensku leiðina út úr fjármálakreppu á opinni ráðstefnu CEPS hugmyndaveitunnar í Brussel í gær. Fundinum stýrði Onno Ruding, fv. fjármálaráðherra Hollands. Auk ráðherra töluðu Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Daniel Gros hagfræðingur.

Efnahags- og viðskiptaráðherra gerði grein fyrir meginþáttum neyðarlaganna, efnahagsáætlunar Íslands og AGS og því jafnvægi sem náðst hefði í ríkisfjármálum. Allar stefnumarkandi ákvarðanir í hruninu og síðar hefðu samræmst alþjóðlegum reglum um gjaldþrot fjármálafyrirtækja þar á meðal lagareglum ESB. Þær hafi byggst á sömu neyðarforsendum og viðbrögð annarra Evrópuríkja hafa gert allt fram á þennan dag í fjármálakreppunni. Leið Íslands hefði komið í veg fyrir að almenningur bæri óásættanlegar byrðar af bankahruninu og komið í veg fyrir að tap einkabanka yrði ríkisvætt.

Ráðherra nefndi að Icesave-málið væri ekki þess eðlis að það ætti að hafa áhrif á stöðu Íslands á alþjóðavettvangi. Bú Landsbankans myndi standa undir þorra og jafnvel öllum kröfum breskra og hollenskra innstæðueigenda og það væri fyrst og fremst vegna þess að löggjafinn hafi með neyðarlögunum veitt innstæðueigendum forgang umfram aðra kröfuhafa. Ísland hefði aldrei vanefnt neinar skuldbindingar ríkisins.

Ráðherra nefndi einnig að gjaldeyrishöft væru ill nauðsyn en markviss skref yrði tekin á næstu misserum til opnunar hagkerfisins og frjálsari markaðsbúskapar, samfara sterkari grundvelli og nýjum vexti hagkerfisins. Aðild að Evrópusambandinu væri mikilvæg forsenda þess að Ísland gæti áfram tekið af krafti þátt í hinu alþjóðlega markaðskerfi og nýtt sér kosti þess, án þess að sú þátttaka hefði í för með sér áhættu fyrir íslenskan almenning.  

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta