28 Brautargengiskonur bætast í hópinn – fjöldi nýrra fyrirtækja í farvatninu
Nýverið luku 28 konur námskeiðinu Brautargengi í Reykjanesbæ og á Akureyri. Þessar konur hafa undanfarnar 15 vikur unnið að viðskiptahugmyndum sínum sem miða að atvinnusköpun í heimabyggð og voru hugmyndir þátttakenda fjölbreyttar að vanda, s.s. ferðaþjónusta, hönnun, ráðgjöf og ýmis konar þjónusta.
Í Reykjanesbæ útskrifuðust 13 konur og hafði hópurinn aðstöðu í Frumkvöðlasetrinu Ásbrú. Ragnheiður Ásta Magnúsdóttir hlaut sérstök hvatningarverðlaun fyrir verkefni sem kallast Húsið okkar en starfsemi þess hófst fyrr á árinu.
Á Akureyri útskrifuðust 15 konur og hlaut Sæunn Mjöll Stefánsdóttur viðurkenningu fyrir vel unna viðskiptaáætlun.
Samtals hafa um 350 konur lokið námskeiðinu á landsbyggðinni en í heildina eru Brautargengiskonur að nálgast níunda hundraðið. Samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar sem gerð var árið 2010 kom í ljós að 80% svarenda segja að þátttaka í Brautargengisnámskeiði hafi stuðlað að betri árangri í rekstri. Fjölmargar hugmyndir hafa orðið að veruleika í gegnum tíðina og má finna heimasíður nokkurra þeirra hér.