Hoppa yfir valmynd
19. maí 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára samþykkt á Alþingi

Ungmenni
Jafnrétti kynja

Tillaga Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra til þingsályktunar í jafnréttismálum til fjögurra ára var samþykkt á Alþingi í dag með öllum greiddum atkvæðum þingmanna. Þar er stefna stjórnvalda skilgreind og kveðið á um aðgerðir til að stuðla að jöfnun rétti og jafnri stöðu kvenna og karla.

Áætlunin tekur til áranna 2011 – 2014. Áhersla er lögð á áframhaldandi aðgerðir til að berjast gegn kynbundnu ofbeldi en þess má geta Ísland varð nýlega meðal fyrstu 13 aðildarríkja Evrópuráðsins til þess að undirrita alþjóðasamning um að koma í veg fyrir og berjast gegn ofbeldi gagnvart konum og gegn heimilisofbeldi.

Í þingsályktuninni er kveðið á um endurskoðun jafnréttisáætlana allra ráðuneyta til að stuðla að og viðhalda jafnrétti kynja á málefnasviðum þeirra. Sérstakri ráðherranefnd er falið að fylgja eftir úrbótum innan stjórnkerfisins og staða jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna verður styrkt. Unnið verður að samþættingu jafnréttissjónarmiða í stjórnsýslunni og gætt skal að jafnræði kynja við sértækar aðgerðir stjórnvalda sem stuðla eiga að fjölgun starfa og nýsköpun. Ráðist verður í átak til að efla jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum.

Áfram verður unnið að innleiðingu kynjaðrar hagstjórnar sem felur í sér að kynjasamþættingu verði beitt í öllu fjárlagaferlinu. Þannig verði metið hver séu líkleg áhrif fjárlaga á aðstæður kynjanna og er markmiðið að endurskipuleggja bæði tekju- og gjaldahlið fjárlaga á grundvelli jafnréttissjónarmiða. Fjármálaráðuneytið hefur gefið út handbók um kynjaða fjárlagagerð sem sérfræðingar innan Stjórnarráðsins geta nýtt sér við framkvæmd verkefnisins um kynjaða fjárlagagerð í þessari aðgerðaáætlun.

Í áætluninni eru lagðar til sjö aðgerðir til að útrýma kynbundnum launamun. Meðal annars verður lokið við gerð jafnréttisstaðla, launaumsjónarkerfi ríkisins verður endurbætt svo gera megi reglulegar úttektir á launum karla og kvenna. Starfsmat sveitarfélaga verður skoðað út frá árangri við að draga úr kynbundnum launamun og metinn ávinningur ríkisins af því að taka upp slíkt mat.

Auk þessa verður efnt til samstarfs við aðila vinnumarkaðarins um innleiðingu vegvísis um launajafnrétti, gefinn verður út leiðbeiningabæklingur um túlkun ákvæðis um jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf og gátlisti fyrir forstöðumenn stofnana um viðmið varðandi endurskoðun á launum þannig að markmiðum um launajafnrétti verði náð.

Nánari upplýsingar á vef Alþingis

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta