Göngubrú yfir Markarfljót ... er ekki tilveran dásamleg!
Þórsmörk á sér marga vini á Alþingi eins og sannaðist í vikunni þegar þingheimur allur sameinaðist um tillögu þess efnis að reisa göngubrú yfir Markarfljót við Húsadal. Brúin mun gera allar samgöngur greiðfærari auk þess sem hún skiptir sköpum varðandi öryggismál. Leiðin í Þórsmörk lokast oft á hverju sumri og mjög alvarleg slys hafa orðið í ám á leiðinni. Göngubrúin mun einnig opna fyrir nýjar gönguleiðir, svo sem Þórsmörk–Tindfjöll, Einhyrningsflatir–Emstrur og Markarfljótsgljúfraleið.
Þórsmörk er á meðal alvinsælustu útivistarsvæða landsins enda náttúrufeguð svæðisins einstök. Áætlað er að árlega heimsæki á bilinu 75-100.000 ferðamenn svæðið þrátt fyrir að enginn komist þangað nema fuglinn fljúgandi og sérútbúnir bílar eftir torfærum slóðum.