Nýtt flokkunarkerfi hættulegra efna
Tekin verður upp samræmd flokkun og merking hættulegra efna á heimsvísu, ný varnaðarmerki verða innleidd auk nýrra hættuflokka og hættu- og varnaðarsetninga, samkvæmt breytingum á lögum nr. 52/1988 um eiturefni og hættuleg efni og lögum nr. 45/2008 um efni og efnablöndur sem samþykktar hafa verið á Alþingi. Lögunum er ætlað að innleiða nýja Evrópureglugerð nr 1275/2008 um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablandna.
Með reglugerðinni er núgildandi flokkunar- og merkingakerfi Evrópusambandsins fyrir efni og efnablöndur lagað að svonefndu GHS-kerfi Sameinuðu þjóðanna, en með því er stefnt að hnattrænni samræmingu við flokkun og merkingu efna og efnavara. Reglugerðin gildir um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablanda með það að markmiði að vernda heilsu og umhverfi. Hún felur einnig í sér að ábyrgð á flokkun efna og efnablanda er að mestu leyti færð yfir á framleiðslufyrirtækin.
Ný varnaðarmerki taka við af þeim sem hafa verið í notkun auk þess sem ný flokkun felur í sér nýja hættuflokka sem verða nokkuð frábugðnir því sem nú þekkist. T.a.m. verður stigskipting innan hvers hættuflokks sem er aðeins í litlum mæli nú. Þá eiga vörur, sem eru flokkaðar hættulegar að vera merktar á íslensku. Varnaðarmerkingunum er ætlað að sýna þá hættu sem af efnunum stafar, vera leiðbeinandi um notkun og geymslu auk þess að gefa upplýsingar um hvað gera skuli ef slys ber að höndum.
Breytingarnar taka gildi í áföngum og eru samræmdar á öllu Evrópska efnahagssvæðinu.
Mkilvægt er að reglurnar taki gildi á sama tíma hér á landi og annars staðar í Evrópu til að tryggja að íslensk fyrirtæki standi jafnfætis keppinautum á Evrópska efnahagssvæðinu.
Á grundvelli hinna breyttu laga verður gefin út reglugerð sem innleiðir ofannefnda reglugerð nr. 1275/2008.
Lög um breytingu á lögum um efni og efnablöndur og lögum um eiturefni og hættuleg efni.