Clinton, Ísland og norðurslóðir
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra birtir í Fréttablaðinu í dag stutta grein þar sem hann fer yfir helstu mál af fundi hans og Hillary Rodham Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna í Washington á miðvikudag. Greinin fer hér á eftir:
*******
Clinton, Ísland og norðurslóðir
Sameiginlegir hagsmunir Íslands og Bandaríkjanna um norðurslóðir eru miklir. Þeir varða jafnt siglingar yfir heimskautið í kjölfar bráðnunar sem og aðgerðir til að tryggja öryggi sæfarenda og þeirra sem munu vinna við nýtingu auðlinda undir hafsbotni á norðurslóðum. Báðum þjóðum er mikilvægt að nýta friðsamlegar leiðir til að greiða úr deilum sem kunna að spretta upp um landamörk á hafsbotni og þarmeð eignarhald á auðlindum. Íslandi og Bandaríkjunum er svo vitaskuld báðum annt um að efla rannsóknir og eftirlit með viðkvæmu vistkerfi norðursins.
Á öllum þessum sviðum náðust mikilvægir áfangar á afar jákvæðum og vinsamlegum fundi mínum og utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í Washington á miðvikudag. Í fyrsta lagi sammæltumst við um að hefja þegar í stað vinnu við viljayfirlýsingu um samstarf á vettvangi norðurslóða, ekki síst akademískra rannsókna. Í öðru lagi lýsti Clinton utanríkisráðherra fullum vilja til að vinna að alþjóðlegum samningu um varnir gegn olíuslysum á norðurhöfum. Í þriðja lagi var mikilvægt að utanríkisráðherra Bandaríkjanna undirstrikaði eindreginn vilja Bandaríkjanna til nota Hafréttarsáttmálann til að setja niður deilur sem upp kunna að koma um landamæri á norðurslóðum. Það eyðir öllu lagalegu tómarúmi ef deilur spretta og dregur þarmeð úr líkum á spennu í norðurhöfum.
Í fjórða lagi var mjög mikilvægt að stefna Íslands um að koma upp alþjóðlegri miðstöð björgunar og leitar á Íslandi, til að tryggja öryggi á því víðfeðma svæði sem Ísland mun bera ábyrgð á þegar nýting norðuslóða eykst, á hljómgrunn hjá Bandaríkjunum. Þó engar skuldbindingar hafi verið gefnar af hálfu Hillary Clinton á frumstigi viðræðna er ljóst að við eigum í henni hauk í horni.
Samvinna á norðurslóðum er því að verða nýr burðarás í samstarfi Bandaríkjanna og Íslands í kjölfar fundar utanríkisráðherra þjóðanna tveggja nú í vikunni.
Skrifað í Washington DC.