Hoppa yfir valmynd
20. maí 2011 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fjármálaráðherra mælir fyrir frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum - hið fyrsta í tengslum við nýja kjarasamninga


Fjármálaráherra mælti þann 19. maí á Alþingi fyrir frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Um er að ræða breytingar á ýmsum lögum í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem gefin var út í tengslum við undirritun kjarasamninga 5. maí. Auk  atriða sem má finna í þeirri yfirlýsingu, inniheldur frumvarpið nokkrar tillögur að lagabreytingum sem talið er brýnt að samþykktar verði á vorþingi. Frumvarpið er hið fyrsta af nokkrum sem ýmist koma fram í vor eða haust  og tengjast yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna nýgerðra kjarasamninga. Fyrr í vikunni varð að lögum frumvarp um gjalddagaaðlögun fyrir atvinnulífið sem efnahags- og skattanefnd flutti.  

Breytingatillögurnar í frumvarpinu varða þrjá meginþætti;

· Persónuafslátt einstaklinga sem lagt er til að verði hækkaður með verðtryggingu frá og með ársbyrjun 2012,

· Skattlagningu fyrirtækja sem  fela í sér ýmsar breytingar til einföldunar og ívilnunar svo og styrkingar á gildandi rétti þeirra frá því sem nú er.

· Tekjustofn VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs sem felst í að lögfesta strax skyldu allra launagreiðenda til greiðslu á 0,13% iðgjaldi til sjóðsins. Að auki er tekið á aðild lífeyrissjóðanna og aðkomu ríkisins í frumvarpinu.

Aðrar breytingar í frumvarpinu  kveða m.a. á um lagfæringar á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, breytingar á lögum um virðisaukaskatt og breytingar á lögum um gjald á áfengi og tóbaki. Einnig er að finna í frumvarpinu   ákvæði um tímabundna hækkun á sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki sem og tímabundinn skatt á lífeyrissjóði. Er þessi skattlagning í samræmi við samkomulag stjórnvalda við fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóði um víðtækar aðgerðir vegna skuldavanda heimila. Mun þessi tímabundni skattur skila ríkissjóði um 3,5 mia. kr. af þeim 6 milljörðum sem áætlað er að greiða út á þessu ári í sérstakar vaxtabætur, sem gengur upp í 18 mia. kr. heildarvaxtabótagreiðslur ríkissjóðs á árinu 2011. Í heild nemur vaxtabótagreiðsla ríkissjóðs um þriðjung af heildarvaxtagreiðslum landsmanna vegna íbúðarhúsnæðis.

Bein og afleidd áhrif kjarasamninganna á afkomu ríkissjóðs verða umtalsverð og er nú unnið að nánari greiningu á þeim. Hækkun persónuafsláttar eykur ráðstöfunartekjur heimila og þar með neyslu í einhverjum mæli sem aftur leiðir til aukinna tekna ríkissjóðs af neyslusköttum. Lækkun tryggingagjalds mun auka svigrúm fyrirtækja til mannaráðninga og fjárfestinga sem eykur umsvif og ætti að endurspeglast í minna atvinnuleysi og þar með auknum launagreiðslum svo dæmi séu tekin.

Á móti útgjöldum eða töpuðum tekjum ríkissjóðs koma þó til ýmis jákvæð áhrif, líkt og kom fram í máli Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra á Alþingi:

„...til lengri tíma litið verða heildaráhrif nýgerðra kjarasamninga á afkomu ríkisins bæði jákvæð og neikvæð. Að sjálfsögðu eiga eftir að falla til umtalsverð útgjöld vegna afleiddra áhrifa kjarasamninganna þegar kemur að hækkun bóta í almannatryggingakerfinu og atvinnuleysisbótakerfinu, sem og eru fleiri áform tengd samkomulagi aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda sem kalla á útgjöld, en að hluta til verður þeim mætt á grundvelli samkomulags sem náðst hefur til dæmis um fjármögnun viðamikilla aðgerða á sviði menntamála. En jákvæð áhrif verða að sjálfsögðu af þessu einnig og til lengri tíma litið umtalsverð. Nýgerðir kjarasamningar eru að sjálfsögðu verðmæt fjárfesting, vonandi í friði og stöðugleika á vinnumarkaði hér til langs tíma, með heilmiklum jákvæðum efnahagslegum áhrifum sem mæta að hluta til íþyngjandi áhrifum þeirra á ríkissjóð, sveitarfélög og að sjálfsögðu atvinnulífið.

Hér má lesa frumvarpið í heild sinni http://www.althingi.is/altext/139/s/1465.html
og hér má lesa ræðu fjármálaráðherra er hann mælti fyrir frumvarpinu
http://www.althingi.is/altext/raeda/139/rad20110519T115912.html

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta