Í tilefni af mati á heimtum þrotabús Landsbankans
Skilanefnd Landsbanka Íslands birti í gær endurskoðað mat á heimtum þrotabús Landsbankans miðað við stöðu í lok fyrsta ársfjórðungs 2011.
Fjármálaráðuneytinu hafa borist fyrirspurnir um áhrif endurmatsins á áætlaðan kostnað ríkissjóðs vegna Icesave-reikninga, m.a. með hliðsjón af þeim samningum sem náðst höfðu milli samninganefnda Íslands, Bretlands og Hollands. Af því tilefni vill ráðuneytið taka fram eftirfarandi:
1. Eftirlitsstofnun EFTA hefur til meðferðar meint samningsbrotamál á hendur íslensku stjórnvöldum. Er þess vænst að niðurstaða ESA liggi fyrir á næstu mánuðum og að eftir það kunni málið af fara fyrir dómstóla. Kostnaður ríkissjóðs vegna málsins er af þessum og fleiri ástæðum óviss.
2. Ráðuneytið hefur uppfært mat sitt á kostnaði ríkissjóðs vegna þeirra samninga sem felldir voru í þjóðaratkvæðagreiðslunni apríl sl. Er það niðurstaða þeirra útreikninga, sem byggja að öllu leyti á sömu reikningsaðferðum og áður að teknu tilliti til nýrra upplýsinga frá skilanefnd, að hreinn kostnaður ríkissjóðs hafi lækkað úr 32 milljarða króna miðað við árslok 2010, í 11 milljarða króna miðað við 31. mars 2011.