Hoppa yfir valmynd
20. maí 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Lifandi dýrgripir jarðarinnar

Dropar á birkikvisti
Dropar á birkikvisti

Degi líffræðilegrar fjölbreytni fagnað á sunnudag

Sameinuðu þjóðirnar og aðildarríki samningsins um líffræðilegar fjölbreytni halda árlega upp á dag líffræðilegrar fjölbreytni 22. maí. Nú á alþjóðlegu ári skóga er áhersla lögð á þýðingu skóga fyrir verndun og viðhald líffræðilegrar fjölbreytni og þann hag sem íbúar jarðar hafa af skógum og skógarafurðum. Um 5000 vörutegundir eiga uppruna sinn í skógum heimsins svo sem ilmefni, lyf, eldsneyti, matur, húsgögn og fatnaður. Skógar hafa auk þess áhrif á loftslag og gegna mikilvægu hlutverki við að draga úr jarðvegseyðingu og við hreinsun vatns. Skógar móta þannig lífsgæði stærsta hluta íbúa jarðarinnar.

Hvarvetna um heiminn hefur skógum hnignað, meðal annars vegna þess að gildi þeirra og þýðing fyrir vistkerfin hefur verið vanmetin og ekki verið tekið tillit til þeirra gæða sem náttúrulegir skógar veita samfélögum, t.d. í formi ýmis konar vistfræðilegrar þjónustu. Eyðing náttúrulegra skóga hefur leitt til aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda, skorts á hreinu vatni og fæðu víða um heim, og einnig til hraðari fækkunar tegunda en áður hefur þekkst á jörðinni.

Hér á landi hefur þekja birkiskóga breyst úr u.þ.b.  25% af flatamáli landsins niður í um 1%. Skilningur á nauðsyn þess að varðveita og endurheimta birkiskóga hér á landi hefur aukist verulega undanfarin ár. Á grundvelli skýrslu um verndun og endurheimt íslenskra birkiskóga, og í samræmi við stefnu og framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar um líffræðilega fjölbreytni, hefur umhverfisráðherra sett af stað vinnu við að friða birkiskóga og leifar þeirra. Auk þess vinna Landgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins að endurreisn Hekluskóga. Þetta er meðal annars í samræmi við samþykkt aðildarríkja samningsins um líffræðilega fjölbreytni frá því í október 2010 þar sem samþykkt var að vinna að því að árið 2020 verði búið að endurheimta um 15% af röskuðum vistkerfum jarðarinnar.

Náttúruleg endurnýjun skiptir einnig verulegu máli fyrir endurheimt birkiskóganna hér á landi eins og landnám birkis á Skeiðarársandi ber með sér. Manngerð og náttúruleg endurnýjun getur verið árangursrík í að endurheimta líffræðilega fjölbreytni birkiskóganna að því gefnu að þeim þáttum sem leiddu til hnignunar eða eyðingar þeirra sé haldið í lágmarki. Það er því mikilvægt að allir landsmenn taki þátt í því með okkur að vernda og endurheimta birkiskóga landsins.

Ríkisstjórnin samþykkti að tillögu umhverfisráðherra Svandísar Svavarsdóttur framkvæmdaáætlun um líffræðilega fjölbreytni 3. desember 2010 en henni er ætlað að framfylgja stefnu um sama efni sem ríkisstjórnin samþykkti í ágúst 2008.

Skýrsla um verndun og endurheimt íslenskra birkiskóga.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta