Rýnifundi um utanríkisviðskipti og þróunarsamvinnu lokið
Rýnifundi um 30. kafla samningaviðræðna við Evrópusambandið, utanríkisviðskipti og þróunarsamvinnu, lauk í Brussel í gær. Á fundinum, sem var sá síðari af tveimur, báru sérfræðingar Íslands og ESB saman regluverk ESB í þessum samningskafla en hann stendur utan EES-samningsins. Fyrir íslenska hópnum fór María Erla Marelsdóttir, formaður samningahópsins.
Komi til aðildar Íslands að ESB verður Ísland þátttakandi í sameiginlegri viðskiptastefnu sambandsins. Við það mun Ísland hverfa frá gildandi fríverslunarsamningum sínum og breyta öðrum viðskiptasamningum þannig að þeir samræmist regluverki ESB. Á sama tíma myndi Ísland gerast aðili að fríverslunarsamninganeti og viðskiptastefnunefnd ESB sem er vettvangur fyrir aðildarríkin til að koma hagsmunum sínum og sjónarmiðum á framfæri í viðræðum ESB við önnur ríki um fríverslun.
Á rýnifundinum vöktu fulltrúar Íslands athygli á því að tryggja þyrfti markaðsaðgang fyrir helstu útflutningsvörur og -þjónustu Íslands á mikilvægustu mörkuðum ESB. Tryggja þyrfti að í fríverslunarsamningum eða -viðræðum ESB við ríki utan sambandsins verði tollar afnumdir eða lækkaðir á innflutningsvörum sem eru mikilvægar fyrir Ísland. Þá þurfi að finna lausnir vegna Hoyvíkursamningsins, til að tryggja viðskiptatengsl við Færeyjar.
Í kynningunni var lögð áhersla á að Ísland hefur tekið þátt í alþjóðlegri þróunarsamvinnu frá árinu 1971. Áherslur Íslands byggjast á þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, áherslu á baráttu gegn fátækt og hungri, jafnrétti kynja, lýðræði og valdeflingu kvenna, mannréttindi, sjálfbæra þróun, frið og öryggi. Ekki er talið að lagabreytinga eða stjórnsýslubreytinga á sviði þróunarsamvinnu sé þörf ef til aðildar kemur. Evrópusambandið hefur sett sér að markmiði að framlög aðildarríkja til þróunarsamvinnu nemi 0,7% af vergum þjóðartekjum árið 2015. Í þingsályktunartillögu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2011-2014, sem er til umfjöllunar á Alþingi, kemur fram að Ísland stefni að því að ná 0,7% markinu árið 2021.
Greinargerðir um kaflann um utanríkisviðskipti og þróunarsamvinnu:
Kaflar 30 og 31-undirbúningur rýnifunda
Kaflar 30 og 31 –forsíða og greinargerð
Kafli 30 – sameiginleg viðskiptastefna