Samanburður á skatthlutföllum á Íslandi og OECD ríkjum
- Vefrit fjármálaráðuneytisins 20. maí 2011 (PDF 154 KB)
Í fyrsta vefritinu eftir útgáfuhlé er farið rækilega í samanburð á skatthlutföllum á Íslandi og OECD ríkjum, í tilefni nýlegarar útgáfu skýrslu OECD um þróun skattbyrði innan OECD ríkjanna. Farið er yfir almenna aukningu á skattbyrði ríkjanna, einblínt á hvernig íslenska skattkerfið kemur út í þeim samanburði og þá helst hvernig það snýr gagnvart fjölskyldufólki og þeim tekjulægstu.
Þann 11. maí síðastliðinn kom út skýrsla OECD um þróun á skattbyrði innan ríkja OECD.
Niðurstöður skýrslunnar eru þær að skattbyrði er í flestum ríkjum OECD að aukast sem skýrist að mestu leyti af ráðstöfunum sem ríkisstjórnir hafa þurft að grípa til vegna erfiðleika í heimshagkerfinu.
Til viðbótar þessu hefur skýrsla OECD um skattbyrði (e. Taxing wages) tvenns konar tilgang: Annars vegar er markmiðið að fjalla um skattafleyginn, þ.e. hversu langt bil er á milli þess sem launagreiðandi þarf að greiða fyrir hvern launþega og þess sem launþeginn ber úr býtum. Hins vegar fjallar þessi skýrsla um það hvernig þessi munur er eftir launaupphæð og félagslegri stöðu.
Samanburður af þessu tagi er á margan hátt lýsandi en þess verður að geta að mismunandi fyrirkomulag skatta, bóta og lífeyrismála getur gert hann ónákvæman. Í mörgum löndum er lífeyriskerfið byggt upp á skatti sem leggst bæði á launagreiðanda og launþega, en hér á landi er meginstoð lífeyriskerfisins utan hins opinbera. Því teljast hvorki iðgjaldshluti launþega eða launagreiðanda til skattafleygsins hér á landi. Sums staðar eru barnabætur greiddar út líkt og er gert hér, meðan annars staðar er stuðningur við barnafjölskyldur í formi afsláttar frá skattstofni. Þá er mismunandi hvað er greitt af hinu opinbera og hvað er greitt af fjölskyldunum sjálfum. Þannig getur orðið erfitt um vik að segja til um samband skatthlutfalla og lífskjara út frá þessum gögnum þannig að gagn sé að. Það skal tekið fram að í þeim tölum sem hér er notast við er miðað við barnabætur eins og þær eru reiknaðar út vegna ársins 2010 en þær koma ekki til útborgunar að fullu fyrr en í ár. Í skattbyrði annarra þjóða eru framlög launþega til almannatrygginga eins og við á en framlög atvinnurekenda eru það ekki.
Mynd 1
Um skattafleyginn
Einfaldasta mynd af skattafleygnum er sett fram á mynd 1 en hún sýnir skatthlutdeild af heildarlaunakostnaði hjá einhleypum einstaklingi á meðallaunum árið 2010. Hlutdeildin er hæst í Belgíu af OECD ríkjum. Á Íslandi er hún sú þriðja lægsta af Evrópuríkjum, einungis Írland og Sviss eru með minni skattafleyg. Á myndinni má sjá hvernig fleygurinn skiptist á milli tekjuskattanna, tryggingagjalda launþega og launagreiðenda og þessi mynd sýnir með skýrum hætti hversu mismunandi fyrirkomulagi aðildarríki OECD byggja á. OECD hefur einnig reiknað út heildarfleyginn þegar tekið hefur verið tillit til lögbundinna gjalda sem ekki teljast skattar. Sá samanburður er þó ekki í skýrslunni. Þarna eru lífeyrisiðgjöldin mikilvægust í okkar tilviki. Þótt tekið sé tillit til þessa er Ísland fyrir neðan miðju í hópi Vestur -Evrópuríkja að því er þennan útvíkkaða fleyg varðar.
Í skýrslu OECD er rakið hvernig skattafleygurinn hefur breyst frá því árið 2009 í töflu 1. Þarna er Ísland í efsta sæti. Af 3,3% hækkun fleygsins stafa 2,2% af hækkun tryggingagjaldsins, 0,8% af hækkun tekjuskatta og 0,4% af því að þetta ár er í fyrsta skipti reiknað með útvarpsgjaldinu. Fleygurinn hefur stækkað í fleiri löndum en hann hefur minnkað.
Skattkerfið og fjölskyldurnar
Í skýrslu OECD er rakið hvernig skattar og bætur koma við afkomu fjölskyldna eftir tekjum og aðstæðum. Þetta er sýnt í töflu 2. Henni er raðað eftir skattbyrði hjóna með tvö börn þar sem annað er með meðallaun en hitt með 2/3 af meðaltalinu.
Í 10 af 18 V-Evrópuríkjum er skattbyrði þessarar fjölskyldutegundar meiri en hér á landi. Einstætt tveggja barna foreldri á Íslandi með tekjur sem nema 2/3 af meðaltekjum býr við lægri skattlagningu en fjölskyldur í sömu stöðu ef undan eru skilin Sviss, Lúxemborg og Írland af V-Evrópuríkjum.
Í greiningu OECD er ekki fjallað um stuðning vegna íbúðarhúsnæðis en hann er verulegur á Íslandi og í ár nær tvöfaldur á við stuðning við barnafjölskyldur. Ísland eyðir rúmlega 1% af VLF í niðurgreiðslu vaxta vegna íbúðahúsnæðis og geta þær upphæðir sem fara til lág- og millitekjuhópa numið verulegu hlutfalli ráðstöfunartekna viðkomandi hópa.
Í tilviki tekjulægstu hópanna mun vaxtaniðurgreiðsla ríkisins nema um 80% af heildarvaxtagjöldum viðkomandi. Hjá hjónum getur hámarksgreiðsla vaxtabóta numið 900 þúsund krónum og hjá einstæðum foreldrum 800 þúsund krónum. Því er hér um verulega áhrifamikla breytu að ræða þegar rætt er um skattbyrði.
Samanburður við Norðurlönd
Auðveldast er að bera Ísland saman við Norðurlöndin vegna þess hversu lík þau eru innbyrðis, þótt margt sé engu að síður ólíkt. Á fyrri myndinni er sýnd nettóskattbyrði einstæðs foreldris að teknu tillit til barnabóta. Ísland sker sig úr með lægra skatthlutfall sem breytist nær einvörðungu vegna kerfisbreytingarinnar sem varð með upptöku útvarpsgjaldsins.
Tafla 1
Á næstu mynd er sams konar samanburður fyrir hjón.
Tafla 2
Hér er Ísland aftur í neðsta sæti ef undan er skilið árið 2010. Í samanburði við 18 OECD ríki í Vestur Evrópu er Ísland aðeins neðan við miðju. Þau lönd með lægri skattbyrði þessa hóps hafa verið Grikkland, Írland, Lúxemborg, Spánn, Portúgal og Sviss en fyrir árið 2010 bættist Svíþjóð í þann hóp.
Tölur þær sem þessir útreikningar byggjast á fyrir Ísland eru frá fjármálaráðuneytinu en upplýsingar um meðaltekjur eru frá Hagstofu. Fyrir árið 2010 eru meðaltekjur 4,3 m.kr. Barnabótaútreikningar miðast við að annað barnið sé yngra en 7 ára en hitt eldra. Árið 2010 er fyrsta árið þar sem reiknað er með útvarpsgjaldi fyrir Ísland og hefur það gjald veruleg áhrif á lægstu tekjuhópa. Það telst í flokkun OECD til framlags launþega til tryggingamála.