Veiðitímabil sumargotssíldar framlengt
Nr. 22/2011
Veiðitímabil sumargotssíldar framlengt
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, hefur í dag framlengt veiðitímabil íslenskrar sumargotssíldar á fiskveiðiárinu 2010/2011. Er þetta gert í því augnamiði að auðvelda makrílveiðar sumarsins 2011, þar sem óhjákvæmilegt er að íslenska sumargotssíldin veiðist sem meðafli við þær veiðar.
Ekki eru allar aflaheimildir yfirstandandi fiskveiðiárs fullnýttar en svo unnt verði að flytja heimildir á milli skipa og stunda makrílveiðarnar með eðlilegum hætti, er þessi breyting á veiðitímabili tegundarinnar nauðsynleg.
Það skal áréttað að veiðitímabili íslensku sumargotssíldarinnar lauk 30. apríl sl. og þessi breyting nú er því ekki ætluð til að skip stundi beinar veiðar á tegundinni, heldur einvörðungu sem úrræði vegna meðafla við aðrar veiðar.