Rýnifundi um utanríkis-, öryggis- og varnarmál lokið
Rýnifundi um 31. kafla samningaviðræðna við Evrópusambandið, utanríkis- og öryggismál, lauk í Brussel á föstudag. Á fundinum, sem var sá síðari af tveimur, báru sérfræðingar Íslands og ESB saman regluverk ESB í þessum samningskafla en hann stendur utan EES-samningsins. Fyrir íslenska hópnum fór María Erla Marelsdóttir, formaður samningahópsins.
Meginmarkmið sameiginlegrar utanríkis- og öryggisstefnu ESB er að standa vörð um sameiginleg gildi og hagsmuni í samræmi við meginreglur stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og að tryggja öryggi aðildarríkja sambandsins með því að standa vörð um frið á alþjóðavettvangi.
Verkefni ESB í þágu friðar fela í sér mannúðaraðstoð, björgunaraðgerðir, varnir gegn átökum, friðargæslu, stjórnun hættuástands, friðarumleitanir og stöðugleikaaðgerðir að loknum átökum. Verkefni ESB falla almennt vel að stefnu íslenskra stjórnvalda hvað varðar þátttöku í fjölþjóðlegum aðgerðum á sviði friðargæslu og mannúðarmála og starfsemi Íslensku friðargæslunnar. Þátttaka Íslands í verkefnum ESB á sviði öryggis- og varnarmála takmarkast við borgaralegt framlag og myndi engin breyting verða á því ef til aðildar kemur.
Sameiginlega öryggis- og varnarmálastefnan gengur aldrei framar stefnu hvers ríkis í öryggis- og varnarmálum. Almennt fellur öryggis- og varnarstefna ESB vel að stefnu íslenskra stjórnvalda í öryggismálum eins og hún er sett fram í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í maí 2009.
Fulltrúar Íslands lögðu á rýnifundinum áherslu á ákveðin atriði sem fram koma í áliti meirihluta utanríkismálanefndar m.a. að Ísland verði áfram herlaust land og herskylda verði ekki tekin upp. Líkt og ráða megi af fyrirliggjandi upplýsingum og skýringum með Lissbonsáttmálanum sé í raun tryggt að Ísland haldi skilyrðislausu forræði sínu yfir öryggis- og varnarmálum og sé í sjálfsvald sett, innan síns ramma, hvort og að hve miklu leyti það kýs að taka þátt í samstarfi ESB á sviði utanríkis- og öryggismála. Ennfremur var áréttað að Ísland muni kjósa að standa utan Evrópsku varnarmálastofnuninnar og að ræða þurfi frekar aðkomu Íslands að ATHENA, fjármögnunarsjóði fyrir hernaðarlega- eða varnartengda starfsemi, með hliðsjón af því að Ísland er herlaust land.
Kaflar 30 og 31-undirbúningur rýnifunda