Forsætisráðherra og innanríkisráðherra heimsækja áhrifasvæði gossins
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri funduðu í morgun með aðgerðastjórn og almannavarnanefnd á Hellu og fóru yfir stöðu mála vegna eldgossins í Grímsvötnum.
Á Kirkjubæjarklaustri heimsóttu ráðherrarnir björgunar- og hjálparmiðstöðina og ræddu þar við fulltrúa almannavarna og sveitarstjóra Skaftárhrepps, Eygló Kristjánsdóttur. Síðan var farið á dvalar- og hjúkrunarheimilið og spjallað við nokkra heimilismenn.
Fram kom allar aðgerðir á svæðinu ganga vel. Ögmundur segir greinilegt að fulltrúar almannavarna og björgunarfólks kunni sitt fag og íbúar séu æðrulausir þrátt fyrir erfiðleika vegna öskufalls. Sveitarstjórinn sagði að aðalverkefnið núna væri falið í því að heimsækja bæi og fylgjast með högum fólks. Ekki er vitað um nein slys á fólki og vel er fylgst með aðstæðum bænda og búfénaðar.