Hörður á Hótel Laka er bjartsýnn á ferðamannasumarið ... engar afbókanir í sumar!
Hörður Davíðsson, ferðaþjónustubóndi á Hótel Laka Kirkjubæjarklaustri er bjartsýnn á sumarið þó að þessa stundina sjáist varla úr augum vegna öskufalls. Hörður segir bókunarstöðuna vera mjög góða og þrátt fyrir náttúruhamfarirnar hafi ekki komið ein einasta afbókun fyrir sumarið – „enda engin ástæða til“ svo vitnað sé beint í Hörð.
Hörður er reyndar bjartsýnismaður að eðlisfari og segir að smá bakslag í viku til tíu daga komi ekki til með að skipta miklu máli. „Hann fer að blása af austan með rigningu sem þýðir að askan endar upp á hálendi. Ísland varð til í eldgosi og við höfum þúsund ára reynslu í að þrauka af okkur tímabundna erfiðleika.“
Hörður hefur boðið sveitungum sínum að koma og gista á hótelinu án endurgjalds á meðan hamfarirnar ganga yfir. „Hér er gott samfélag sem stendur saman þegar á bjátar“ segir Hörður.
Hörður og eiginkona hans Salóme Ragnarsdóttir reka Hótel Laka ásamt dóttur sinni Evu Björk og hennar fjölskyldu. Þau eru búin að vera í ferðaþjónustu síðan 1973 og á síðustu fimm árum hafa þau verið í markvissri uppbyggingu. Hótelið tekur um 150 manns í gistingu og um sumarmánuðina er mikill meirihluti gesta af erlendu bergi brotinn.