Daglegir fundir viðbragðsteymis vegna eldgossins í Grimsvötnum
Eldgosið í Grímsvötnum getur haft mikil áhrif á ferðaþjónustuna á Íslandi og rétt eins og í eldgosinu í Eyjafjallajökli á síðasta ári hefur Katrín Júlíusdóttir ferðamálaráðherra kallað saman viðbragðsteymi sem hittist á hverjum morgni í ráðuneytinu til að meta stöðuna og taka ákvarðanir um aðgerðir.
Í viðbragðsteyminu eru fulltrúar frá iðnaðar- og ferðamálaráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu, Almannavörnum, Ferðamálaráði, embætti Forseta Íslands, Ferðamálastofu, Vatnajökulsþjóðgarðs, Icelandair, Iceland Express, Íslandsstofu, Reykjavíkurborgar og Samtaka ferðaþjónustunnar.
Á fundi miðvikudagsmorguninn 25. maí kom m.a. fram að gosið í Grímsvötnum virðist vera á lokametrunum enda þótt vísindamenn slái engu föstu ennþá um goslok. Óhætt virðist að koma því sterkt á framfæri að nú sé komið grænt ljós á hreinsunar- og uppbyggingarstarf á þeim skika af landinu sem helst varð fyrir barðinu á öskufalli.
Fram kom á fundinum að ekki ber mikið á afbókunum og teknar hafi verið ákvarðanir um að halda þær ráðstefnur sem í uppnámi voru hér á landi vegna flugtruflana.
Fundargerð 23. maí má lesa hér.
Fundargerð 24. maí má lesa hér.
Fundargerð 25. maí má lesa hér