Hoppa yfir valmynd
25. maí 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Heildstæð verndun og sjálfbær nýting vatns

Skógarfoss.
Skógarfoss.

 

Ný lög um stjórn vatnamála miða að því að tryggja aðgang að heilnæmu vatni til framtíðar

Alþingi hefur samþykkt lög. nr. 36/2011 um stjórn vatnamála en markmið þeirra er að tryggja sjálfbæra nýtingu vatns með langtímavernd einnar dýrmætustu auðlindar jarðarinnar, vatnsauðlindarinnar í huga.

Markmið laganna er að skapa grundvöll fyrir góða og skilvirka stjórnsýslu við stjórn vatnamála svo hægt sé að tryggja aðgang að góðu og heilnæmu vatni til framtíðar. Með því má koma í veg fyrir rýrnun á vatni og um leið vernda, viðhalda og bæta ástand vatns og vistkerfa þess. Hér er því  um mikla hagsmuni að ræða  bæði hvað varðar almenning og íslenskt atvinnulíf sem nýtir vatn í sinni framleiðslu, s.s. í matvælaframleiðslu, orkunýtingu, ferðaþjónustu, landbúnað og iðnað.

Vatnaráð taki til starfa

Lögin kveða m.a. á um stofnun vatnaráðs sem er umhverfisráðherra til ráðgjafar um stjórn vatnamála og gerir ráðið m.a. tillögur til ráðherra um staðfestingu áætlana skv. lögunum og fylgist með því að markmiðum laganna sé náð.  Umhverfisstofnun annast þau verkefni sem vinna þarf að í samræmi við markmið laganna. Stofnunin ber að gera það í nánu samstarfi við sveitarfélög, opinberar stofnanir, eftirlitsaðila, atvinnulíf og hagsmunaaðila svo sem á sviði náttúruverndar og umhverfismála. Samkvæmt lögunum er landið eitt vatnaumdæmi sem eykur skilvirkni við stjórnun vatnsverndar, tryggir yfirsýn og samræmd vinnubrögð.

Þá  kveða lögin á um þau umhverfismarkmið sem þarf að ná til að uppfylla kröfur um gæði vatns og í hvaða tilvikum hægt er að víkja frá þeim kröfum. Vinna skal heildstæða vatna- og aðgerðaáætlun fyrir árið 2018 sem og vöktunaráætlun fyrir árið 2015. Í vatnaáætlun er m.a. gerð grein fyrir eiginleikum vatnaumdæmisins, hvar sé að finna helsta álag og áhrif af starfsemi á ástand vatns svo og niðurstöður vöktunar vatns. Þá er kveðið á um að unnin verði stöðuskýrsla til að sýna fram á núverandi ástand vatns.

Kannað hvernig komið verði til móts við kostnað

Lögunum er ætlað að koma til fullra framkvæmda fyrir árið 2024. Ljóst er að nokkur kostnaður muni hljótast af framfylgd laganna og af þeim sökum er umhverfisráðuneytið með til skoðunar gjaldtöku á atvinnurekstur sem nýtir vatnsauðlindina í samræmi við hina almennu mengunarbótareglu og svokallaða nytjagreiðslureglu, sem felur í sér að þeir sem nýta auðlindir skuli standa undir nauðsynlegum eftirlitskostnaði sem tryggir að ekki sé gengið á viðkomandi auðlindir.

Lög um stjórn vatnamála

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta