Stykkishólmur er næsti bær við aldingarðinn Eden
Stykkishólmsbær var nýlega útnefndur EDEN-gæðaáfangastaður í Evrópu 2011 fyrir varðveislu og endurnýjun menningarminja og metnaðarfulla stefnu í sjálfbærri þróun í ferðaþjónustu. Viðurkenninguna fær bæjarfélagið vegna markvissrar uppbyggingar gömlu húsanna í bænum sem gengið hafa í endurnýjun lífdaga og öðlast nýtt hlutverk í ferðaþjónustu, þar sem sjálfbærni- og umhverfishugsun er í forgrunni. Þá má geta þess að Stykkishólmur hefur í samvinnu við fjögur önnur sveitarfélög á Snæfellsnesi fengið fullnaðarvottun umhverfisvottunarsamtakanna Earthcheck, eitt svæða á Íslandi.
EDEN-gæðaáfangastaðir ,,European Destination of Excellence“ er samevrópskt verkefni sem Ferðamálastofa heldur utan um fyrir Íslands hönd. Markmið þess er að vekja athygli á gæðum, fjölbreytileika og sameiginlegum einkennum evrópskra áfangastaða og kynna til sögunnar nýja, lítt þekkta, áfangastaði vítt og breitt um Evrópu þar sem áhersla er lögð á ferðaþjónustu í anda sjálfbærni.
Verðlaunaafhendingin og sýning með kynningu á öllum verðlaunaáfangastöðunum fer fram í Brussel í haust. Allir EDEN verðlaunahafar fá töluverða umfjöllun og kynningu í fjölmiðlum Evrópu í tengslum við verðlaunaafhendinguna og á vefsíðum og kynningarritum EDEN verkefnisins eftir það. EDEN verðlaunin eru bæði viðurkenning á gæðum viðkomandi áfangastaðar og hafa mikla þýðingu fyrir markaðssetningu.