Hoppa yfir valmynd
26. maí 2011 Utanríkisráðuneytið

Rýnifundi um dóms- og innanríkismál lokið

Rýnifundi um 24. kafla samningaviðræðna við Evrópusambandið, dóms- og innanríkismál, lauk í Brussel í dag. Á fundinum, sem var sá síðari af tveimur, báru sérfræðingar Íslands og ESB saman löggjöf í þessum samningskafla en hann stendur utan EES-samningsins. Fyrir íslenska hópnum fór Ragnhildur Helgadóttir, formaður samningahópsins, en vegna eldgossins í Grímsvötnum tók hluti sérfræðinga þátt í fundinum í gegnum fjarfundarbúnað frá Reykjavík.

Efni kaflans lýtur að reglum um samstarf á sviðum einka-, refsi-, lögreglu- og tollamála auk reglna um málefni innflytjenda, sameiginleg ytri landamæri, Schengen-samstarfið og persónuvernd. Umfangsmesti hluti kaflans er Schengen hlutinn en Ísland tekur þátt í því samstarfi og hefur gert það með viðunandi hætti að mati framkvæmdastjórnar ESB. Löggjöf kaflans veldur almennt ekki vandkvæðum fyrir Ísland en þó eru tiltekin atriði sem rétt er að skoða nánar, s.s. reglur um varnir gegn hryðjuverkastarfsemi. Hugsanleg aðild að ESB mun einnig kalla á umfangsmiklar breytingar á nokkrum tölvukerfum, m.a. sakaskrár og tollgæsluyfirvalda, en þetta síðastnefnda er einnig til skoðunar í samningahópi um fjárhagsmálefni.

Á rýnifundinum var vísað til þess að íslensk stjórnvöld væru að meta efni reglugerðar 805/2004 um evrópska aðfararheimild á óumdeildum kröfum sem gæti gert það að verkum að viðurkenna og fullnægja skuli dómum erlendra dómstóla í meiðyrðamálum án undantekninga, með tilliti til þess að varnagla um allsherjarreglu er ekki fyrir að fara í reglugerðinni.

Meðfylgjandi er greinargerð um kafla 24.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta