Ávarp Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á ráðstefnunni „Opið upp á gátt hjá ríki og sveitarfélögum“
Fundarstjóri, ágætu ráðstefnugestir,
„Opið upp á gátt hjá ríki og sveitarfélögum“ er yfirskrift dags upplýsingatækninnar eða UT-dagsins - sem nú er haldinn í sjötta sinn.
Ég býð ykkur öll velkomin til þessa viðburðar sem mun beina athygli okkar að mikilvægi opinberra vefgátta í þeirri viðamiklu þjónustu sem ríki og sveitarfélög veita.
Mikilvægi vefjanna er augljóst fyrir þá sem þurfa á opinberri þjónustu að halda eða þurfa að finna upplýsingar hjá stofnunum eða sveitarfélögum. Vefirnir eru nefnilega opnir upp á gátt allan sólarhringinn, alla daga ársins.
Óhætt er að segja að þær breytingar sem orðið hafa á samskiptum stjórnvalda við almenning og fyrirtæki með tilkomu upplýsingatækninnar hafi verið átakalitlar. Jafnvel mætti segja að breytingarnar hafi orðið hægt og hljótt - án mikillar umræðu eða ágreinings.
Bæði almenningur og fyrirtæki hafa tekið aukinni rafrænni þjónustu fegins hendi og nýtt hana mjög vel án teljandi vandkvæða. Stofnanir hafa hins vegar farið hægar í sakirnar en væntingar voru um. Framboðið á slíkri þjónustu hefur því verið minna en eftirspurnin.
Staðan er því sú að almenningur er löngu tilbúinn til að taka upp rafræn samskipti og er það afar ákjósanleg staða fyrir opinbera aðila. Því blasir við að sóknarfærin liggja í því að auka framboð á hvers kyns þjónustu á opinberum vefjum og ná með því bættri þjónustu og aukinni hagræðingu.
Í þessu samhengi vil ég nefna að ég tel að forsætisráðuneytið hafi stigið mikilvægt skref um áramótin síðustu – þegar verkefnið Ísland.is var flutt frá ráðuneytinu til Þjóðskrár Íslands. Þar tel ég að verkefnið geti þroskast hratt og dafnað vel - enda hefur það slitið barnskónum og á betur heima í stofnun eins og Þjóðskrá Íslands en í ráðuneyti.
Ágætu ráðstefnugestir
Þegar ný ríkisstjórn tók við völdum árið 2009 einsetti hún sér að auka aðgengi almennings að upplýsingum í stjórnsýslunni. Því skipaði ég starfshóp í júní 2009 sem falið var það hlutverk að endurskoða gildandi upplýsingalög. Þar var unnið mikið og gott starf sem skilaði sér í drögum að frumvarpi. Víðtækt samráð fór svo fram í kjölfarið. Afrakstur þessa starfs er sá að fyrir liggur frumvarp að nýjum lögum sem ég lagði fyrir nú á vorþingi.
Þar sem þessi ráðstefna fjallar um opinbera vefi langar mig til að vekja athygli ykkar á að skv. 13. grein frumvarpsins getur forsætisráðherra, með reglugerð, sett fyrirmæli um birtingu gagna og upplýsinga stjórnvalda á vefsíðum þeirra. Með reglugerðinni skal tryggja, eftir því sem kostur er, að birting sé samræmd milli stjórnvalda og að viðeigandi reglum um meðferð upplýsinga sé fylgt.
Í þessu felst möguleiki á því að opnað verði fyrir aðgengi að upplýsingum um þau mál sem stjórnvöld hafa eða hafa haft til meðferðar. Með öðrum orðum að opnaður verið afmarkaður aðgangur að málaskrám opinberra aðila. Vitaskuld er ekki verið að tala um öll mál þar sem huga verður að ýmsu í þessu sambandi, svo sem persónuverndarsjónarmiðum og öryggi ríkisins. Eigi að síður liggja í þessu tækifæri til að stórefla upplýsingarétt almennings en það er megintilgangur frumvarpsins.
Mig langar til að nefna tvö önnur verkefni sem forsætisráðuneytið hefur haft forgöngu um og eru áhugaverð fyrir ráðstefnugesti.
Í maí á síðasta ári skipaði ráðuneytið vinnuhóp um innleiðingu frjáls og opins hugbúnaðar í opinberri stjórnsýslu. Honum var ætlað að gera tillögur að aðgerðaáætlun um innleiðingu á frjálsum og opnum hugbúnaði í opinberum rekstri. Í því fólst að gera tillögur um val á hugbúnaði sem væri vel til þess fallinn að nota í opinberum rekstri, velja samstarfsaðila, skipuleggja frumgerðarverkefni og gera langtímaáætlun.
Hópurinn hefur nú skilað af sér vinnuáætlun fyrir innleiðingu frjáls og opins hugbúnaðar hjá opinberum aðilum. Er nú verið að fara yfir og meta hver næstu skref geta orðið á þessu sviði.
Í júní 2010 skipaði fosætisráðuneytið annan vinnuhóp um rafræn samskipti opinberra aðila við einstaklinga og lögaðila. Honum er ætlað að kynna sér helstu aðferðir sem völ er á við að veita einstaklingum, fyrirtækjum og opinberum aðilum aðgang að skjölum sem fara þeirra á milli, ásamt aðferðum til að halda utan um samskipti þessara aðila á hagkvæman og notendavænan hátt.
Hópurinn á að skoða mögulegar lausnir og meta þær með tilliti til íslenskra aðstæðna og þeirra innviða sem fyrir eru. Vinnuhópnum er enn fremur ætlað að koma með tillögu að útfærslu hér á landi ásamt kostnaðaráætlun. Starf þessa hóps er langt á veg komið og er búist við að hann skili af sér á næstu vikum.
Ágætu gestir,
Ljóst er að staðan í efnahagasmálunum hefur valdið töfum á ýmsum verkefnum á sviði upplýsingatækni og vefþróunar. Það á við á þessu sviði eins og öðrum að við þurfum nú að gera meira en áður - fyrir minna fé. Í því samhengi tel ég að það sé afar mikilvægt að vel takist til um þróun Ísland.is hjá Þjóðskrá Íslands. Þar skiptir sköpum að náð verði víðtæku samstarfi við bæði ríkisaðila og sveitarfélög með það að markmiði að ná fram aukinni hagkvæmni um leið og þjónusta verði aukin.
Ég læt þetta gott heita og óska þess að dagskrá UT-ráðstefnunnar hér á eftir verði bæði fróðleg og hvetjandi.