Hoppa yfir valmynd
27. maí 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Hreinsun gengið framar vonum

Á Kirkjubæjarklaustri.
Á Kirkjubæjarklaustri.

Umhverfisráðherra í heimsókn á öskufallssvæðum

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra heimsótti í gær þau svæði sem urðu einna verst úti í öskufallinu í eldgosinu í Grímsvötnum. Með í för var Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri, sem veitti leiðsögn og útskýrði áhrif öskufalls á gróður á svæðinu, bæði í eldsumbrotunum nú og í gosinu úr Eyjafjallajökli í fyrra.

Ráðherra heimsótti m.a. stjórnstöð Almannavarna á Hellu þar sem Kjartan Þorkelsson, sýslumaður og formaður stjórnar Almannavarna V-Skaftafellssýslu fór með ráðherra yfir viðbrögð og viðbúnað vegna gossins. Þá ræddi hann viðbragðsáætlun svæðisins vegna hugsanlegs Kötlugoss og annarra eldsumbrota sem gætu orðið í landshlutanum.

Í stjórnstöð Almannavarna á Hellu.

Á leiðinni austur á Kirkjubæjarklaustur fór landgræðslustjóri yfir ástand gróðurs og farvatna undir Eyjafjöllum eftir gosið í fyrra. Ljóst er að þar hefur farið fram gífurlegt uppbyggingarstarf, bæði við að hefta árfarvegi og að binda jarðveg, t.a.m. með sáningu, þótt enn sé mikil vinna eftir.

Nokkur aska á Síðu og í Fljótshverfi

Í stjórnstöð Almannavarna á Kirkjubæjarklaustri hitti ráðherra m.a. fyrir stjórnendur aðgerða á staðnum, björgunarsveitarfólk, sveitarstjóra og fleira heimafólk. Það gaf góða innsýn inn í upplifun  af gosdögunum og hreinsunarstarfinu sem hófst þegar á miðvikudag og hefur gengið framar öllum björtustu vonum, enda hafa veður og vindar verið hagstæð í kjölfar öskufallsins. Er því allt útlit fyrir að gosið muni valda mun minni röskun á ferðaþjónustu og daglegu lífi íbúa á Kirkjubæjarklaustri en menn óttuðust í fyrstu.

Að lokinni heimsókn á Kirkjubæjarklaustri var haldið í skoðunarferð austur um Síðu og Fljótshverfi. Þar liggur töluverð aska yfir landinu sem vindar hafa ekki náð að feykja burt. Er því hætta á að það muni taka nokkurn tíma fyrir lággróður að jafna sig eftir öskufall á því svæði.

Í Fljótshverfi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta