Ótrúlegt en satt ... það er búið að opna tjaldsvæðið í Skaftafelli!
Það er hreint makalaust hvað tíminn líður hratt á þessari gervihnattaöld! Á mánudag sá varla úr augunum í Skaftárhreppi vegna öskufalls og nú á föstudegi er búið að opna tjaldsvæðið í Skaftafelli.
Að sögn Regínu Hreinsdóttir þjóðgarðsvarðar féll aska í Skaftafelli í hálfan sólarhring eftir að gosið hófst og var þjóðvegur 1 lokaður beggja vegna Skaftafells. Stíf norðanátt og úrkoma í kjölfarið hafa hins vegar hreinsað mesta öskuna í burt og grænn gróður einkennir nú Skaftafell líkt og önnur sumur.
Um leið og þjóðvegur 1 var opnaður á ný hófu gestir að streyma í Skaftafell og var gist bæði í tjöldum og húsbílum á tjaldsvæðinu í nótt. Á laugardag opnar svo veitingasalan í Skaftafellstofu í fyrsta sinn í sumar og þar með er full sumarstarfsemi komin í gang.