Samningur um útvarpsþjónustu í almannaþágu
Nýr samningur um útvarpsþjónustu í almannaþágu á milli mennta- og menningarmálaráðuneytis og Ríkisútvarpsins hefur verið undirritaður.
-
Helstu atriði:
- Lýðræðis- og menningarhlutverk Ríkisútvarpsins skýrt og undirstrikað.
- Ríkisútvarpið vinnur markvisst að því að jafna stöðu kynjanna.
- Árlegt útvarpsþing tryggir aðkomu almennings að mótun dagskrárstefnu.
Nýr samningur um útvarpsþjónustu í almannaþágu á milli mennta- og menningarmálaráðuneytis og Ríkisútvarpsins hefur verið undirritaður. Með samningnum er hlutverk Ríkisútvarpsins sem fjölmiðils í almannaþágu nánar skilgreint en verið hefur og aukin áhersla lögð á mikilvægi þess sem einnar af meginstofnunum samfélagsins á sviði lýðræðis og menningar. Þá er fjallað um þær grundvallarreglur sem hafa skal í heiðri í fréttaflutningi og annarri dagskrárgerð. Auk þess er áhersla á samskipti við almenning, bæði um meðferð ábendinga og kvartana sem og afstöðu til þjónustunnar.
Þá felur samningurinn í sér aukna áherslu á aðkomu starfsmanna og almennings að stefnumótun Ríkisútvarpsins m.a. með því að halda árlega útvarpsþing. Einnig setur Ríkisútvarpið sér þá stefnu að vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna, jafnt innan stofnunarinnar sem og í dagskrá. Ríkisútvarpið setur sér einnig það markmið að veita heyrnarskertum betri aðgang að útvarpsþjónustu í almannaþágu með því að auka áherslu á textun allrar forunninnar íslenskrar dagskrár. Að lokum má nefna að gert er ráð fyrir að árið 2013 muni að minnsta kosti 6% af þjónustutekjum Ríkisútvarpsins frá ríkinu varið til kaupa eða meðframleiðslu á íslensku efni og að minnsta kosti 2,5% til talsetningar barnaefnis.
Nýr samningur var undirritaður þriðjudaginn 24. maí sl. af Katrínu Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, Svanhildi Kaaber formanni stjórnar Ríkisútvarpsins ohf. og Páli Magnússyni, útvarpsstjóra.