Hoppa yfir valmynd
30. maí 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Scandic-hótelin fá umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs

Scandic Webers hótelið í Kaupmannahöfn.
Scandic Webers hótelið í Kaupmannahöfn.

Scandic-hótelkeðjan fær umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs í ár fyrir að stuðla að sjálfbærri ferðaþjónustu á Norðurlöndum og um allan heim. Hótelkeðjan hefur verið í fararbroddi á sviði sjálfbærrar ferðaþjónustu í hartnær tvo áratugi.

Segir í fréttatilkynningu frá Norðurlandaráði að Scandic hafi frá árinu 1994 gengið á undan með góðu fordæmi með því að draga úr mengandi áhrifum starfsemi sinnar. Það hafa hótelin gert með því að gera kröfur til birgja og bjóða gestum að taka þátt í að reyna að uppfylla vistvæn markmið, t.d. með því að minnka þvott og flokka úrgang. Síðan hafi önnur fyrirtæki, bæði í hótelgeiranum og samfélaginu í heild, fetað í þeirra fótspor.

Í þessum efnum hafa smáatriðin ekki síst skipt máli og sem dæmi var það starfsmaður Scandic sem fékk þá hugmynd að leggja til að hótelgestir spöruðu þvott á handklæðum. Þá var Scandic meðal þeirra fyrstu sem notuðu fljótandi sápu, hótelin bjóða upp á lífrænt kaffi og drykkjarvatn er ekki á plastflöskum. Þá hafa rúmlega 11.000 starfsmenn hótelanna fengið fræðslu um umhverfismál, 19.000 hótelherbergi hafa verið byggð úr sjálfbærum byggingarefnum og alls hafa 114 af 147 hótelum í keðjunni fengið Svansmerkið, umhverfisviðurkenningu Norrænu ráðherranefndarinnar.

Verðlaunin, sem nema 350.000 dönskum krónum, verða afhent ásamt þremur öðrum norrænum verðlaunum, fyrir bókmenntir, kvikmyndir og tónlist, á Norðurlandaráðsþingi í byrjun nóvember.

Sjá nánar um verðlaunin og verðlaunahafann.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta