Hoppa yfir valmynd
31. maí 2011 Forsætisráðuneytið

Nefnd falið að fjalla um stofnun auðlindasjóðs og stefnumörkum í auðlindamálum ríkisins.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu forsætisráðherra og fjármálaráðherra um að skipuð verði nefnd um stefnumörkun í auðlindamálum ríkisins.

Í samstarfslýsingu ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs eru sett fram áform um stofnun auðlindasjóðs sem fari með ráðstöfun fiskveiðiréttinda í eigu þjóðarinnar og ráðstöfun tekna sjóðsins; í áætluninni um Ísland 2020 eru ennfremur lagt til að stofnaður verði auðlindasjóður er fari með ráðstöfun arðs af auðlindum í eigu þjóðarinar og að þeim arði verði ráðstafað til atvinnuppbyggingar; og loks má nefna að í drögum að orkustefnu er lagt til að forræði og umsýsla með orkuauðlindum ríkisins verði færð á eina hendi og tekjur renni til atvinnuuppbyggingar.

Mikilvægt er að fyrir liggi almenn stefnumörkun varðandi það, annars vegar, hvernig staðið er að ráðstöfun nýtingarréttar á auðlindum og ráðstöfun ýmissa réttinda sem ríkið ræður yfir og, hins vegar, hvernig farið er með þær tekjur sem aflað er þar með. Æskilegt er að slík stefnumörkun sé í senn almenn og heildstæð, og geti t.a.m. náð til nýtingarréttar á þjóðlendum, vatnsafli, jarðvarma, ferskvatni, fiskistofnum, fjarskiptatíðnum og kolvetnum í jörðu, auk losunarheimilda, en hún þarf jafnframt að vera þannig að hægt sé að útfæra hana með sértækari hætti fyrir einstök málefnasvið.

Nefnd um stefnumörkun í auðlindamálum ríkisins með fulltrúum forsætisráðherra, fjármálaráðherra, iðnaðarráðherra, umhverfisráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, innanríkisráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra, skal skila skýrslu til ríkisstjórnarinnar um framangreint fyrir 1. desember nk.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta