Fyrsta yfirlit vistheimtar á Íslandi komið út
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra veitti í dag mótttöku ritinu Vistheimt á Íslandi, en þetta er í fyrsta sinn sem birt er yfirlit yfir endurheimt hnignaðra vistkerfa á landinu. Ritið er hluti af heildaryfirliti yfir stöðu vistheimtar á Norðurlöndum.
Hnignun vistkerfa er alþjóðlegt vandamál. Hér á landi hefur orðið stórfelld eyðing gróðurs og jarðvegs og flest gróðurlendi landsins bera merki hnignunar þótt víða sé gróður í framför. Auðnir hafa myndast þar sem áður var gróið land. Náttúrlegir skógar landsins eru aðeins brot af því sem áður var og meira en helmingi alls votlendis hefur verið raskað.
Í Vistheimt á Íslandi eru dregnar saman upplýsingar um framkvæmdir, rannsóknir og fræðslu er lúta að vistheimt á Íslandi. Þar koma m.a. fram upplýsingar um hvenær vistheimtarverkefnin hófust, stærð þeirra, markmið, aðferðir og samstarfsaðila, auk þess sem völdum verkefnum er lýst nánar.
Þetta er mikilsverður áfangi í átt að því að endurheimta íslensk vistkerfi en til að efla vistheimtarstarf á Íslandi er nauðsynlegt að fyrir liggi hvað hefur verið gert og til hvaða árangurs það hefur leitt. Það er forsenda þess að unnt sé að læra af fenginni reynslu og bæta aðferðir.
Unnið hefur verið að ritinu Vistheimt á Íslandi frá árinu 2009 en ritstjórar þess eru Ása L. Aradóttir og Guðmundur Halldórsson. Auk þeirra sátu Guðjón Magnússon, Kristín Svavarsdóttir, Ólafur Arnalds og Þórunn Pétursdóttir í ritnefnd.