Ísland í efsta sæti friðarvísitölu
Ísland trónar á toppi árlegrar friðarvísitölu, Global Peace Index, á þessu ári en hún er árlega gerð af Institute for Economics and Peace og var kynnt í Washington hinn 25. maí síðastliðinn. Í umfjöllun samtakanna er vikið að þeim jákvæðu breytingum sem hafa átt sér stað „undir stöðugri stjórn núverandi ríkisstjórnar” og Jóhönnu Sigurðardóttur er lýst sem „umbótasinnuðum forsætisráðherra.”
Í skýrslunni segir að efnahagsumhverfið hafi breyst til batnaðar frá 2009, íslenska samfélagið einkennist af samstöðu og öryggi, þar sem innbyrðis átök og glæpatíðni er lág. Sérstök athygli er vakin á því að fjöldi fanga á Íslandi sé með því lægsta sem þekkist, eða einungis 55 fangar á hverja hundrað þúsund íbúa. Þá er reifuð sérstaklega þátttaka Íslands í friðargæslu erlendis.
Skýrsluhöfundar vísa til niðurlagningar Varnarmálastofnunar og undirstrika að Ísland sé herlaust land og hvergi í Evrópu sé lægra hlutfall af landsframleiðslu varið til starfsemi sem tengist hernaði og átökum.
Ísland endurvinnur nú efsta sæti friðarvísitölunnar, sem það hélt árið 2008, en hrapaði niður í fjórða sæti í kjölfar hrunsins. Í öðru sæti í ár er Nýja-Sjáland, Japan í þriðja, Danmörk í fjórða, og Tékkland í því fimmta. Af öðrum Norðurlöndum er Finnland í því sjöunda, Noregur í níunda sæti og Svíþjóð í því þrettánda.
Í fimm neðstu sætunum eru Sómalía, Írak, Súdan, Afganistan og Norður-Kórea. Írak hefur til þessa vermt neðsta sæti vísitölunnar, sem ófriðvænlegasta land veraldar, en batnandi öryggi í landinu speglast í örlítið hærri stöðu þess í ár.
„Arabíska vorið” leiddi til dramatískra breytinga á friðarvísitölunni og Líbía fellur í ár um 83 sæti niður í það 143. af alls 153 þjóðum, en það er mesta fall milli ára frá því friðarvísitalan var gefin út fyrir fimm árum. Þá féll Barein um 51 sæti niður í 123, og Egyptaland um 24 sæti niður í það 73.
Hlekkur með frétt: Vision of Humanity