Hoppa yfir valmynd
3. júní 2011 Matvælaráðuneytið

Fimmta endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands samþykkt í stjórn AGS

Stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) samþykkti fimmtu endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og sjóðsins á fundi sínum í Washington í dag, 3. júní. Þar með stendur íslenskum stjórnvöldum til boða lánafyrirgreiðsla sjóðsins að fjárhæð um 25,7 milljarðar króna. Íslenskum stjórnvöldum stendur einnig til boða öll sú lánafyrirgreiðsla sem Norðurlöndin höfðu boðað í tengslum við áætlunina, um 73 milljarðar kr., en dregið verður á þau lán eftir því sem nauðsyn krefur.

Í tengslum við endurskoðunina sendu stjórnvöld sjóðnum endurnýjaða viljayfirlýsingu (e. Letter of Intent). Í yfirlýsingunni kemur fram að hagkerfið sé óðum að taka við sér og hagvöxtur verði árið 2011 í fyrsta sinn frá hruni. Þá fari einkaneysla vaxandi, verðbólga sé lítil, vöruskiptajöfnuður jákvæður og krónan hafi haldist stöðug. Helsta áskorunin framundan sé að draga úr atvinnuleysi. Í viljayfirlýsingunni segir ennfremur að horfur greiðslujafnaðar séu nægilega sterkar til að styðja við afnám gjaldeyrishafta í áföngum. Þá sé þess vænst að bæði hlutfall skulda ríkissjóðs og erlendra skulda fari ört lækkandi.

Gögn í tengslum við endurskoðunina verða birt eftir helgi. Gert er ráð fyrir að núverandi efnahagsáætlun Íslands og AGS renni út í lok ágúst.

„Staðfesting endurskoðunarinnar er til marks um þann efnahagsbata sem grunnur hefur verið lagður að á undanförnum misserum,“ segir Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra. „Áætlun Íslands hefur notið víðtæks stuðnings innan stjórnar AGS. Sá stuðningur er ekki síst til kominn vegna þess mikla árangurs sem náðst hefur í ríkisfjármálum síðastliðin tvö ár.“

Gögn í tengslum við fimmtu endurskoðun á efnahagsáætlun íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta