Fundur fulltrúa Líbíska þjóðarráðsins með utanríkisráðherra
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra átti í dag fund með Guma El-Gamaty, sérstökum fulltrúa Líbíska þjóðarráðsins (National Transitional Council), þar sem fjallað var um málefni Líbíu og aðgerðir alþjóðasamfélagsins þar í landi. El-Gamaty er fulltrúi þjóðarráðsins gagnvart breskum stjórnvöldum, auk þess að sinna samskiptum við önnur ríki Evrópu.
Á fundinum kynnti El-Gamaty stöðu þjóðarráðsins, áherslur þess og framtíðarsýn. Fram kom að bandalag uppreisnarmanna sé að eflast, meðal annars vegna alþjóðlegs stuðnings við þjóðarráðið og með árangursríkum aðgerðum Atlantshafsbandalagsins við að framfylgja ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1970 og 1973. Aðgerðir NATO, og áður nokkurra aðildarríkja þess, hafi skipt sköpum við að takmarka manntjón vegna árása Líbíuhers á eigin borgara. Að mati þjóðarráðsins sé einnig ljóst að Gaddafí verði að hverfa frá völdum svo tryggja megi framtíð Líbíu.
Utanríkisráðherra reifaði afstöðu íslenskra stjórnvalda og ítrekaði stuðning við fyrrgreindar ályktanir öryggisráðsins. Ísland hafi stutt ályktanirnar og aðgerðir Atlantshafsbandalagsins sem miði að því að vernda líf óbreyttra borgara. Það sé grundvallarforsenda stuðnings Íslands að aðgerðirnar rúmist innan umboðs öryggisráðsins. Einnig lagði utanríkisráðherra sérstaka áherslu á að Gaddafi verði dreginn fyrir alþjóða glæpadómstólinn.
„Við styðjum að fullu þau gildi og áherslur sem fulltrúi Líbíska þjóðarráðsins hefur kynnt á fundi okkar í dag, sem fela í sér áherslu á lýðræðisþróun, mannréttindi, jafnrétti, málfrelsi og bætta stjórnarhætti. Líbíska þjóðin á að fá að kjósa sér leiðtoga í lýðræðislegum kosningum og byggja upp samfélag þar sem frelsi og manngildi eru höfð að leiðarljósi. Við styðjum baráttu þjóðarráðsins fyrir þessum markmiðum“ sagði utanríkisráðherra að loknum fundi sínum með El-Gamaty.