Níu sumarstarfsmenn ráðnir til að styrkja upplýsingagjöf í kjölfar eldgossins í Grímsvötnum
Reynslan frá eftirleik eldgossins í Eyjafjallajökli á síðasta ári kennir okkur að rétt miðlun upplýsinga til ferðamanna skiptir gríðarlega miklu máli. Nú þegar askan úr eldgosinu í Grímsvötnum er sest þá standa ferðaþjónustuaðilar frammi fyrir sömu áskorun.
Mikilvægt er að hefja þegar markvisst starf við upplýsingamiðlun til innlendra og erlendra ferðamanna. Á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun var veitt fjármagn til að ráða níu sumarstarfsmenn og munu þeir ganga til liðs við Markaðsstofu Suðurlands, upplýsingarveitur ferðamála og Kötlusetur.
Vinnumálastofnun og Iðnaðarráðuneytið skipta með sér kostnaði við átakið og nemur hlutur ráðuneytisins um 5,4 m.kr.
Störfin eru eftirfarandi
1. Markaðssetning (Markaðsstofa Suðurlands, 1 starf).
Mikilvægt er að vekja áhuga Íslendinga á að ferðast um áhrifasvæði gossins í sumar og koma í veg fyrir að gosið og fréttaflutningur af því leiði til þess að íslenskir ferðamenn forðist svæðið. Markaðsstofa Suðurlands ræður einn starfsmann sem hefur meðal annars það hlutverk að ráðast í sértæka kynningu á svæðinu gagnvart íslenskum ferðamönnum, skipuleggja viðburði sem laðað geti ferðamenn að svæðinu og þróa vörur sem byggja á sérstöðu svæðisins og aðdráttarafli sem nýst geti til eflingar ferðaþjónustu á svæðinu.
2. Upplýsingaveitur ferðamála (Rangárþing eystra (1 starf), Skaftárhreppur (2 störf) og Sveitarfélagið Hornafjörður (1 starf).
Upplýsingamiðstöðvar sem leiða ferðamenn inn á svæðið gegna mikilvægu hlutverki við að tryggja ánægjulega dvöl gesta á svæðinu. Mikilvægt er að efla og styrkja starfsemi þeirra, frá Höfn að Hveragerði.
3. Kötlusetur og Katla geopark (Mýrdalshreppur, fh. tveggja sjálfseignarstofnana, 4 störf)
Kötlusetri er í framtíðinni ætlað að verða hvorttveggja í senn rannsókna- og fræðasetur og menningarmiðstöð í Vík í Mýrdal. Í upphafi er höfuðáherslan í starfsemi Kötluseturs lögð á ferðaþjónustu og menningartengda starfsemi. Þá mun Kötlusetur verða tengiliður Mýrdælinga við samstarfsverkefnið Kötlu–Jarðvang á sviði jarðfræðitengdrar ferðamennsku.