Hoppa yfir valmynd
7. júní 2011 Matvælaráðuneytið

Tímamót í skráningu og upplýsingagjöf um aðgengi fatlaðra að byggingum og ferðamannastöðum

Hækkandi sól - Ein góð frétt á dag
Hækkandi sól - Ein góð frétt á dag

Nú er að ryðja sér til rúms hérlendis nýtt kerfi sem veitir upplýsingar um aðgengi að byggingum og útisvæðum ætluðum almenningi. Upplýsingarnar birtast á vefnum www.gottadgengi.is

Kerfið sem um ræðir byggir á danskri fyrirmynd og byggir á sjö flokkum sem einmitt taka til áðurnefndra flokka fötlunar. Á heimasíðunni eru upplýsingar um öll sjö merkin og leitarvél sem auðveldar almenningi aðgang að upplýsingum um vottaða staði og hvernig aðgengið er á þeim. Allar grunnupplýsingarnar sem skráðar eru í kerfið er einnig að finna á ensku, dönsku, sænsku og þýsku.

Nú þegar hafa nokkur hótel og veitingastaðir látið taka út aðgengi sitt ásamt um 20 náttúruperlum á Suðurlandi. Sveitarfélagið Garður var fyrst til fá vottun fyrir skóla, söfn og fleiri staði sem tilheyra sveitarfélaginu.

Að verkefninu stendur fyrirtækið Aðgengi sem rekið er af Hörpu Cilia Ingólfsdóttur. Á næstu vikum mun Harpa fara hringinn í kringum landið til að vekja athygli á mikilvægi aðgengis fatlaðra og Aðgengismerkjakerfinu. Til liðs við hana hafa gengið Diddú söngkona, Edda Heiðrún Bachman leikkona, Helgi Hjörvar alþingismaður, Árni Tryggvason leikari og sjómaður, Jónína Leósdóttir rithöfundur, Eyþór Ingi tónlistamaður og söngvari og Daníel Ólafsson framhaldsskólanemi. Öll munu þau prýða veggspjald og upplýsingabækling sem útskýrir mikilvægi aðgengis fyrir hóp sem þau tilheyra og er þessu átaki ætlað að beina sjónum að þessu aðkallandi málefni og þeim stóra hóp sem geta nýtt sér Aðgengismerkjakerfið á hverjum degi.

Verkefnið hefur notið stuðnings ýmissa aðila, meðal annars Ferðamálastofu, sem veitt hefur styrk til úttektar á vinsælum ferðamannastöðum. Einnig mun úttekt samkvæmt kerfinu telja inn í nýja gæða- og umhverfiskerfið Vakann.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta