Íslensk hlaupatækni tekur (léttilega) stór markaðsskref á Englandi
Smári Jósafatsson er maðurinn á bak við nýja hlaupatækni – SMART MOTION – sem krefst minni orkunotkunar, er betri fyrir líkamann og dregur stórlega úr meiðslahættu. Smári hefur boðið upp á námskeið í Smart Motion hlaupastílnum frá haustinu 2006 og hafa þau notið mikilla vinsælda og jafnframt er komin upp góður hópur sérmenntaðra hlaupaþjálfara til að kenna þessa tækni.
Nú um nokkurn tíma hefur sókn inn á enska hlaupamarkaðinn verið í bígerð og það má segja að hún hafi fengið fljúgandi start í kjölfarið á LONDON MARATHON EXPO sýningunni. Þar fékk Smart Motion frábærar undirtektir og mikla fjölmiðlaumfjöllun. Smári og félagar eru með námskeið í Victoria Park og í framtíðinni einnig í Hyde Park.
Sjálfur átti Smári í meiðslabrasi á sínum tíma og fór að stunda Pilates og jóga til að liðka líkamann. Í kjölfarið fór hann að velta því fyrir sér hvernig hann gæti yfirfært þá líkamsbeitingu yfir í hlaup og skokk. Eftir að hann hafði þróað Smart Motion hlaupastílinn fór hann að kynna hann fyrir gömlum hlaupajálkum sem margir hafa verið að berjast við alls kyns álagsmeiðsli – og það var eins og við manninn mælt að þeir gengu flestir í endurnýjun hlaupalífdaga.
Og nú er Smári sem sagt búinn að reima á sig sjö mílna skóna og hyggur á landvinninga í Englandi. Og svo auðvitað heimsyfirráð!
Smart Motion er með aðsetur í frumkvöðlasetri Nýsköpunarmiðstöðvar í Keldnaholti og allar upplýsingar um næstu námskeið eru á www.smartmotion.is