Markvisst starf gegn utanvegaakstri
Vísbendingar eru um að heldur dragi úr utanvegaakstri samkvæmt nýrri samantekt Umhverfisstofnunar, en á síðustu misserum hafa stofnanir á vegum umhverfisráðuneytisins unnið eftir aðgerðaáætlun ráðuneytisins í því skyni að draga úr utanvegaakstri.
Akstur utan vega hefur lengi verið vandamál á Íslandi enda er landið víða viðkvæmt fyrir ágangi. Hjól vélknúinna ökutækja mynda auðveldlega djúp för í jarðveginn og getur tekið ár eða áratugi fyrir náttúruna að komast í upprunalegt horf. Því hefur áhersla verið lögð á að sporna við utanvegaakstri og er unnið að því á mörgum sviðum.
Starfshópur á vegum ráðuneytisins vinnur að því að flokka vegi í samvinnu við sveitarfélög landsins en hann hefur fundað með öllum sveitarfélögum sem eiga land innan miðhálendislínu. Er vonast til að þessi vinna muni skila sér í formi tillagna frá sveitarfélögunum í haust um það hvaða vegir eigi að vera opnir og hverjir lokaðar. Þegar hafa um tíu sveitarfélög skilað inn slíkum tillögum en alls eru sveitarfélög sem eiga land innan miðhálendislínunnar um 20 talsins. Mun Umhverfisstofnun fara yfir tillögur sveitarfélaganna og í framhaldinu munu upplýsingar um þessar leiðir verða settar upp í kortagrunn Landmælinga Íslands (ÍS 50).
Þá er unnið að aðgerðaráætlun í utanvegaakstursmálum en í þeim hópi sitja fulltrúar Landgræðslu ríkisins, Landmælinga Íslands, Umhverfisstofnunar og Vatnajökulsþjóðgarðar. Samkvæmt nýjum tölum frá landvörðum og lögreglustjóraembættum virðist hafa dregið úr utanvegaakstri um 15 – 30% en hafa ber í huga að eftirlit með akstri utan vega er ófullkomið og því eru tölurnar ekki óyggjandi.. Þá er nokkur munur á svæðum hvað þetta varðar og sums staðar virðist þróunin á verri veg. Sömuleiðis hefur hjálparbeiðnum á hálendinu fækkað.
Starfandi er fræðslu- og samráðsvettvangur um utanvegaakstursmál þar sem saman koma fulltrúar hagsmunaaðila, samtaka ferðafólks og opinberir aðilar til að bera saman bækur sínar og vinna að því að upplýsa og fræða ferðamenn um málið. Ráðuneytið og stofnanir þess ásamt hagsmunaðilum og frjálsum félagasamtökum hafa unnið að því að koma fræðslu til vegfaranda með auglýsingum, bæklingum og fræðsluskiltum. Fræðsluskilti við fjallvegi virðast hafa borið árangur því dregið hefur úr umferð smábíla á hálendinu og tilvikum utanvegaaksturs hjá útlendingum hefur fækkað