Árleg skotpróf og skýrari kröfur til leiðsögumanna með hreindýraveiðum
Alþingi samþykkti í gær breytingar á lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Breytingarnar varða reglur um hreindýraveiðar, leiðsögumenn með hreindýraveiðum og skiptingu arðs af hreindýraveiðum.
Samkvæmt lögunum er hreindýraveiðimönnum skylt að gangast undir verklegt skotpróf árlega, líkt og tíðkast annars staðar á Norðurlöndum, í því skyni að tryggja að veiðimaður hafi færni til að fella dýrið á réttan hátt og án óþarfa þjáningar. Tekur þetta ákvæði laganna gildi 1. janúar 2012 en frestur veiðimanna til að skila staðfestingu á verklegu skotprófi inn til Umhverfisstofnunar verður 1. júlí ár hvert. Þó er stofnuninni heimilt að veita veiðimanni, sem fær úthlutað leyfi til hreindýraveiða eftir 1. júlí, frest til að skila inn staðfestingunni.
Þá er í lögunum kveðið á um hlutverk leiðsögumanna með hreindýraveiðum og gerðar eru skýrari kröfur til þekkingar þeirra en áður.
Loks kveða lögin á um að aðeins verði heimilt að úthluta arði af hreindýraveiðum til þeirra sem leyfa hreindýraveiðar á landi sínu allt veiðitímabilið. Veiðitímabilið er tiltölulega stutt og getur hreindýrakvóti verið stór og er markmiðið með þessum breytingum að dreifa álagi á veiðisvæðin og draga úr líkum á því að fjöldi leiðsögumanna og veiðimanna séu á sama stað undir lok veiðitímabilsins.
Lög nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.