Hoppa yfir valmynd
10. júní 2011 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Fé veitt til friðlýsingar Dimmuborga og Hverfjalls

Dimmuborgir.
Dimmuborgir.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun 5 milljóna króna fjárveitingu til nauðsynlegra framkvæmda og rekstrar í tengslum við friðlýsingu Dimmuborga og Hverfjalls (Hverfells) í Mývatnssveit. Stefnt er að því að Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra undirriti friðlýsingar þessara svæða síðar í mánuðinum.

Dimmuborgir og Hverfjall (Hverfell) eru meðal þeirra staða sem falla utan þess svæðis í Skútustaðahreppi sem friðlýst er í lögum nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár (tengill) en teljast engu að síður mikilvæg þar sem um afar sérstæðar jarðmyndanir er að ræða.

Með fjármagninu er hægt að ráðast í uppbyggingu innviða svo taka megi með sómasamlegum hætti á móti ferðamönnum sem sækja svæðið heim. Landvarsla, stígagerð, upplýsingar og merkingar eru nauðsynlegar til að viðhalda verndargildi svæðanna og gæta öryggis gesta.

Ákvörðunin er í samhljómi við Sóknaráætlun Íslands 20/20 til eflingar atvinnulífs og lífsgæða. Þar er fjallað um styrkingu þjóðgarða og friðlýstra svæða með áherslu á umhverfismál í tengslum við ferðaþjónustu. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta