Hoppa yfir valmynd
10. júní 2011 Matvælaráðuneytið

Rökstutt álit Eftirlitsstofnunar EFTA um Icesave málið - Yfirlýsing efnahags- og viðskiptaráðherra til Alþingis

Eftirlitsstofnun EFTA sendi íslenskum stjórnvöldum rökstutt álit um Icesave-málið í morgun. Í því kemur fram sú afstaða stofnunarinnar að Íslandi beri að tryggja að innstæðueigendur í Icesave í Hollandi og Bretlandi fái greiddar að lágmarki 20.887 evrur í samræmi við tilskipun um innstæðutryggingar.  Fellst stofnunin ekki á svör íslenskra stjórnvalda frá 2. maí sl.

Með bréfi sendi ég fyrir hönd íslenskra stjórnvalda svar til stofnunarinnar vegna áminningarbréfs frá því í maí á síðasta ári. Í svarinu var því hafnað að Ísland hefði vanefnt skyldur sínar samkvæmt innstæðutryggingatilskipuninni og brotið gegn ákvæðum EES-samningsins. Svarið var unnið í víðtækri samvinnu við utanríkismálanefnd og með aðkomu sérfræðinga úr ólíkum áttum. Við undirbúning svarsins nutum við liðsinnis félagasamtaka sem hafa látið sig málið varða í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum. Samvinna við þau var mjög mikilvæg.

Enn sem fyrr er um lagalegan ágreining að ræða í þessu máli. Afstaða Íslands er sú að ekki sé ríkisábyrgð á skuldbindingum vegna innstæðutrygginga og ekkert hefur komið fram í rökstuddu áliti Eftirlitsstofnunarinnar sem breytir þeirri afstöðu ríkisstjórnarinnar. Þvert á móti má efast um að ríkisábyrgð á skuldbindingum innstæðutryggingasjóða standist almenn sjónarmið Evrópuréttar og slík ríkisábyrgð gæti ógnað fjármálastöðugleika í ýmsum Evrópusambandsríkjum.

Icesave-málið er erfitt mál og hefur reynst vandasamt úrlausnar. Þrátt fyrir efasemdir um lagaskyldu til ábyrgðar hafa íslensk stjórnvöld ítrekað reynt að leysa þetta mál með samningum. Innstæðueigendur í Bretlandi og Hollandi sem njóta tryggingaverndar hafa þegar fengið kröfur sínar greiddar úr þarlendum sjóðum, en Eftirlitsstofnunin lítur framhjá því. Með fréttum af bættum heimtum úr búi Landsbanka Íslands er ljóst að allur þorri krafna allra innstæðueigenda og tryggingasjóða í Bretlandi og Hollandi fæst greiddur úr búi hins fallna banka. Þetta á jafnt við um innstæðueigendur sem njóta innstæðutryggingaverndarinnar og aðra, þar með talið góðgerðarfélög og sveitarfélög í Bretlandi og þá innstæðueigendur í Hollandi sem áttu kröfur umfram 100.000 evrur.

Eftirlitsstofnun EFTA veitir í álitinu íslenskum stjórnvöldum þrjá mánuði til að gera viðeigandi ráðstafanir til að fara að álitinu. Að öðrum kosti má búast við að málinu verði vísað til EFTA dómstólsins. Framundan kann því að vera málarekstur um þetta mál fyrir dómi.

Í fyrsta skipti í sögu þessa máls hefur nú náðst órofa samstaða allra flokka á Alþingi um málsvörn Íslands. Mikilvægi þess verður ekki ofmetið. Sú samstaða er forsenda raunsæs stöðumats. Enginn getur fullyrt um úrslit dómsmáls en Ísland hefur mikilvægan málstað að verja.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta