Ný snjallleiðsögn í boði í Þýskalandi ... saga til næsta bæjar!
Íslenska tölvuleikjafyrirtækið Locatify gaf nýlega út í samvinnu við þýska útgáfufyrirtækið AudioBits nýja snjallleiðsögn um hina sögufrægu borg Trier í Þýskalandi. Leiðsögnin er til sölu í Apple Store og eru tvær ferðir í boði; önnur stutt sem fæst án endurgjalds og önnur lengri sem er töluvert viðameiri og gefur hún skýra mynd af sögu borgarinnar allt frá tíma Rómaveldis. Leikarar í hlutverkum vínhöndlara og nunnu frá miðöldum leiða ferðalanga um fornar minjar, kastala og kirkjur og segja frá merkilegum viðburðum í lífi fólks frá fyrri tímum. Frásagnirnar eru á þýsku, frönsku og ensku og hefst ferðin við Porta Nigra sem er forn bygging á heimsminjaskrá.
Samstarf við útgáfufyrirtækið Audiobits komst á í gegnum tengslanet sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands er hluti af og kallast Enterprise Europe Network. Hér er um að ræða alþjóðlegt tengslanet sem hefur það að markmiði að aðstoða fyrirtæki og stofnanir við að efla samkeppnishæfni á alþjóðamarkaði. Þessi snjallleiðsögn er sú fyrsta sem gefin er út á erlendri grundu en frekari leiðsagnir eru í undirbúningi.
Í snjallleiðsögnum fyrir snjallsíma og spjaldtölvur hrindir GPS af stað frásögnum, myndum og hnitum á sögukortum og Google kortum á þeim stöðum sem ferðamaður er staddur á. Þannig er boðið upp á sjálfvirkar leiðsagnir í bíl- og gönguferðum þar sem sögumaður segir frá því sem markverðast er í umhverfinu.
Á Íslandi er boðið upp á sex leiðsagnir á átta tungumálum og jafnt og þétt bætast fleiri leiðsagnir við.