Aldarafmælissjóður Háskóla Íslands stofnaður með það að markmiði að stórefla rannsóknir hér á landi.
Jóhanna Sigurðardóttir lýsti því yfir á sérstökum þingfundi til minningar um Jón Sigurðsson í morgun að Alþingi og ríkisstjórn hefðu samþykkt að heiðra Háskóla Íslands í tilefni af 100 ára afmæli hans með stofnun Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands. Stofnframlag í sjóðinn á afmælisárinu 2011 er 150 milljónir króna. Markmið með stofnun sjóðsins er að efla rannnsóknir og nýsköpun sem nýtast muni til uppbyggingar atvinnulífs og verðmætasköpunar í þágu íslensks samfélags og þjóðar. Við mat á árlegu framlagi í sjóðinn verður höfð hliðsjón af hvernig miðar í sókn Háskóla Íslands að markmiðum, eins og þau eru sett fram í stefnu skólans og áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum á framangreindu tímabili. Sérstakur starfshópur skipaður fulltrúum frá Alþingi, forsætisráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu, mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Háskóla Íslands verður settur á fót og mun meta og gera tillögur um framlög til rannsókna í Aldarafmælissjóðinn á árunum 2012 til 2020.
-
Yfirlýsing Alþingis og ríkisstjórnar um stofnun Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands
-
Ávarp forsætisráðherra þegar tilkynnt var um stofnun sjóðsins