Dr. Ólafur H. Wallevik fær heiðursverðlaun fyrir rannsóknir á steinsteypu ... því að vel skal vanda það sem lengi skal standa.
Dr. Ólafur H. Wallewik forstöðumaður grunnrannsókna á Nýsköpunarmiðstöð Íslands og prófessor við Háskólann í Reykjavík hlaut á dögnum æðstu heiðursverðlaun Norræna steinsteypusambandsins. Verðlaunin eru veitt þriðja hvert ár fræðimanni sem þykir hafa sýnt framúrskarandi færni á sviði þróunar og rannsókna á steinsteypu, gæðum hennar og notagildi.
Rannsóknir á sementsbundnum efnum er stór þáttur í starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og hefur Dr. Ólafur H. Wallevik stýrt rannsóknum í flotfræði sementsbundinna efna ásamt teymi sínu í samvinnu við hvorutveggja innlendar og erlendar stofnanir og fyrirtæki. Þekkingarstigið á þessu sviði er mjög hátt á Íslandi og þykir Ólafur hafa unnið að þróun steinsteypu með eftirtektarverðum hætti og undraverðum árangri. Hann hefur í gegnum árin átt stóran þátt í þeirri aðferðafræðilegu þróun sem hefur átt sér stað á efniseiginleikum steinsteypu, endingu og gæðum auk nýskapandi tilrauna með mismunandi íblöndunarefni gagngert til að svara breyttum kröfum og þörfum á markaði. Meðal afreka Ólafs á þessu sviði er þróun á tæki sem mælir gæði steypu í tromlu steypubíls og þykir vinna hans og óeigingjarnt framlag bera af þar.