Uppbygging friðlýstra svæða og þjóðgarða í þágu ferðaþjónustu
Umhverfisráðuneytið fagnar nýsamþykktum lögum um gistináttagjald. Með þeim er stigið mikilvægt skref í átt að því að auka fjármögnun til uppbyggingar á friðlýstum svæðum og í þjóðgörðum.
Friðlýst svæði og þjóðgarðar eru eitt helsta aðdráttarafl ferðamanna sem hingað koma vegna náttúrunnar sem þessir staðir geyma. Þannig gegna þeir einnig mikilvægu hlutverki í ferðaþjónustu. Því er brýnt að bæta aðstöðu til móttöku ferðamanna og tryggja að þessi svæði láti ekki á sjá eða náttúru þeirra hraki vegna aukinnar umferðar.
Lögin taka gildi 1. september næstkomandi og því má ætla að árangur af lagasetningunni muni skila sér til aukinna framkvæmda strax á næsta ári.
Ráðuneytið mun leggja áherslu á að þau svæði þar sem álagið er mest njóti forgangs við ráðstöfun fjárins sem fæst með þessari nýju gjaldtöku.