Ástrós opnar Pilates-stúdíó í Brussel ... aðlögunarferli Evrópusambandsins að Íslandi er hafið!
Það er stundum talað um aðlögunarferli Íslands að Evrópusambandinu en eftir að þau Ástrós Gunnarsdóttir og Þorfinnur Ómarsson opnuðu Pilates-stúdíó í Brussel þá er kannski réttara að tala um aðlögunarferli Evrópu að Íslandi. Viðskiptin ganga framar öllum björtustu vonum enda varla þverfótað fyrir skrifstofulúnum embættismönnum sem veitir ekki af teygju- og styrktaræfingum úr smiðju frumkvöðulsins Jósefs Hubertus Pilates.
Pilates Centre Brussel er heitið á stúdíóinu og að sögn Ástrósar er það eitt sinnar tegundar í borginni. „Ég vildi hrista upp í Brussel með því að bjóða þá albestu líkamsrækt sem völ er á ... þ.e.a.s. ef hún er rétt kennd!“ Stúdíóið er staðsett í hinu svokallaða Evrópuhverfi, í hjarta höfuðborgar Evrópu! Í hverfinu eru fleiri skrifstofumenn en tölu verður á komið og „þeim veitir víst ekki af að skreppa í Pilatestíma hvort heldur sem er fyrir eða eftir vinnu nú eða þá í hádegishléinu.“
Og samkvæmt nýjustu talningu þá sameinast Pilates-iðkendur frá 15 þjóðum í hinu eina sanna Pilates Centre Brussel sem starfar eftir þeirri hugmyndafræði Pilatesar að „maður sem hefur þjálfað líkama sinn til fullkomins samræmis og þroskað heilbrigðan huga skilar daglegum störfum sínum fljótt og vel, af ungæðislegum lífsþrótti og gleði“.