Ísland sem fjárfestingakostur - ráðherra gestur dansk-íslenska verslunarráðsins í Kaupmannahöfn í dag
Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra flutti í dag framsögu um Ísland sem fjárfestingakost og hagstjórn landsins á opnum fundi dansk-íslenska verslunarráðsins í Kaupmannahöfn. Í ræðu sinni lagði hann út af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í stjórnarsáttmála um stuðning við aukna fjárfestingu á Íslandi og greindi frá yfirstandandi endurskoðun á löggjöf og stefnumörkun um erlenda fjárfestingu. Ráðherra lagði einnig áherslu á mikilvægi aukinnar erlendrar fjárfestingar og aukinnar samkeppni í íslensku atvinnulífi til að skapa megi sjálfbæran hagvöxt. Þá lýsti hann áætlun um afnám gjaldeyrishafta og þeim tækifærum sem hún skapar til að hraða afnámi hafta og auka erlenda fjárfestingu í íslensku atvinnulífi.